Arnór Ingvi er farinn til Grikklands
-Verður á láni hjá AEK Aþenu fram á næsta sumar
Arnór Ingvi Traustason er mættur til Grikklands til að ganga frá lánssamningi við AEK Aþenu. Grískir fjölmiðlar hafa birt myndir af Arnóri með AEK Aþenu trefil við komuna til Grikklands. Arnór verður á láni fram á næsta sumar en gríska félagið getur svo keypt hann á eina milljón evra í kjölfarið.
Arnór kom til Rapid Vín í fyrrasumar eftir að hafa árið áður orðið sænskur meistari með IFK Norrköping. Meiðsli settu strik í reikninginn á fyrsta tímabili Arnórs í Austurríki en Rapid Vín endaði í 5. sæti.
AEK endaði í 4. sæti í grísku deildinni á síðasta tímabili en liðið vann síðan umspil um sæti í Meistaradeildinni. Eiður Smári Guðjohnsen og Elfar Freyr Helgason voru á mála hjá félaginu fyrir nokkrum árum en þá var Arnar Grétarsson yfirmaður íþróttamála þar.
Þetta kemur fram á fotbolti.net