Arnór Ingvi: „Er ég ekki bara sameiningartákn Reykjanesbæjar?“
Miðjumaðurinn um markið og EM ævintýrið í Frakklandi
Það var ekki svo auðvelt að ná tali af Arnóri Ingvar Traustasyni eftir hetjudáðir hans gegn Austurríkismönnum á EM í fótbolta í vikunni enda pilturinn eftirsóttur. Hann er einbeittur og jarðbundinn og vill sjálfur ekki verða gerður af einhverri hetju. „Ég ætla ekki að eigna mér eitt eða neitt. Þessir leikmenn sem eru búnir að spila allan leikinn þeir eiga mikið hrós skilið,“ segir Arnór hógvær eftir að hafa skorað líklega eftirminnilegasta og mikilvægasta mark Íslandssögunnar í fótboltanum.
„Ég er alveg kominn niður á jörðina en þetta var smá tilfinningarússíbani. Maður er enn að átta sig á því að þetta hafi gerst en þetta er alveg frábært,“ bætir hann við. Arnór segist hafa fengið smá fiðring þegar hann fékk kallið um að koma inn á í leiknum. Hann segist þó fyrst og fremst hafa verið einbeittur á það að setja mark sitt á leikinn.
Tengdar fréttir: Foreldrar Arnórs voru í flugi þegar leikurinn hófst
Arnór horfir yfir frönsku Alpana í sveitasælunni í Annecy á meðan samtalið fer fram og segir að liðið hafi allt til alls við höndina. Hópurinn sé náinn og þéttur og Arnór hefur aðlagast vel. „Þessi hópur er svo stórglæsilegur. Þetta eru svo miklir íþróttamenn og atvinnumenn og þeir hafa hjálpað mér frá fyrsta degi að komast inn í hlutina.“ Arnór segir að því hafi verið að falla vel inn í hópinn. Hann er sá eini í 23 manna hóp íslenska liðsins sem er einhleypur. Hann komst á dögunum á merkilegan lista hjá Smartlandi þar sem hann var sagður einn af heitustu piparsveinum landsins. Stákarnir hafa aðeins strítt honum í kjölfarið.
„Gylfi kom til mín og spurði hvernig mér þætti að vera heitasti piparsveinn landsins. Ég kom bara af fjöllum og vissi ekkert um hvað hann var að tala“
„Ég fékk það alveg óþvegið. Þetta kom mér nú bara í opna skjöldu að það væri til einhver svona listi. Gylfi kom til mín og spurði hvernig mér þætti að vera heitasti piparsveinn landsins. Ég kom bara af fjöllum og vissi ekkert um hvað hann var að tala, en hann var ekkert að grínast drengurinn. Ég veit ekki með þennan lista, þetta er frekar vandræðalegt.“ Arnór hefur fengið einhver skot í kjölfarið og þá hefur Njarðvíkingurinn Ingvar Jónsson verið duglegur að láta hann heyra það.
Nafn Arnórs var ansi vinsælt á samfélagsmiðlunum eftir markið fræga og kveðjum ringdi yfir hann í kjölfarið. Hann grunaði að svo væri og íhugaði að láta það eiga sig að opna símann eftir leikinn. „Þegar ég svo opnaði hann loksins þá sprakk hann nánast. Það voru þúsundir búnir að óska mér til hamingju. Allir þessir samfélagsmiðlar voru hreinlega að springa á tímapunkti.“
Vildi stimpla sig í í Austurríki með marki
Næsta heimili Arnórs er Vínarborg þar sem hann mun leika með liði Rapid Wien. Þar bíður búslóðin eftir honum eftir að hafa verið flutt frá Svíþjóð þar sem Arnór lék með liði Norrköping síðustu tvö tímabil.
„Ég hugsaði það fyrir leik að það væri gaman að koma inn á og setja hann bara, stimpla mig bara inn í Austurríki, og svo gerðist það. Eftir leikinn þá voru þarna margir stuðningmenn Rapid Wien sem kölluðu á mig og vildu má mynd og voru alsælir með mig. Þeir voru ánægðir með að ég hafi skorað þetta mark þar sem markmaðurinn þeirra er að spila með Austria Wien sem eru erkifjendurnir. Þeir vonast til að ég nái að skora oftar gegn honum.“
Þrátt fyrir þessa sterku innkomu gegn Austurríki þá er Arnór ekkert að gera sér neinar vonir um byrjunarliðssæti gegn Englendingum í 16-liða úrslitum.
„Ég set enga pressu á þjálfara og virði það hverjir fá að byrja leikinn. Ef ég er einn af þeim þá er ég mjög ánægður, en ef ég fer á bekkinn þá er ég tilbúinn hvenær sem er. Ég er ekkert að gera mér einhverjar vonir, það er bara vitleysa finnst mér. Þetta er liðsíþrótt og hver og einn einstaklingur er mikilvægur í 23 manna hóp, þannig að maður sættir sig við það hlutverk sem maður fær.“
Keflavík eða Njarðvík?
Strax eftir að leik lauk þá fóru íbúar Reykjanesbæjar að þræta um hvort Arnór væri frá Keflavík eða Njarðvík. Arnór hló þegar blaðamaður tjáði honum að svo væri. „Þetta verður ekki þreytt. Er ég ekki bara það sem setur Njarðvík og Keflavík saman? Eitthvað sameiningartákn. Ég byrjaði að æfa fótbolta með Njarðvík og hef alltaf búið í Njarðvík. Æfði líka körfubolta í Njarðvík. Ég fór svo að æfa fótbolta með Keflavík þegar ég var 15 ára og spilaði þar með meistaraflokki. Fyrir mig er þetta ekkert mál hvort ég sé Njarðvíkingur eða Keflvíkingur, ég styð bæði lið. Fyrir mér er þetta bara Reykjanesbær og allir eiga að vera vinir.“
Við báðum Arnór að lýsa því aðeins hvað flaug í gegnum hausinn á honum þegar markið kom í blálokin gegn Austurríki. „Ég sé þarna að við erum að fara að sækja hratt á þá og varð því að taka sprettinn með Birki. Ég bíð svo einginlega bara eftir sendingunni og eftir að ég sé boltann koma þá hugsa ég ekkert. Vonast bara eftir að hitta hann og boltinn lekur í netið og úr varð markið. Ég þurfti að teygja mig svolítið eftir honum en í svona færi er eiginlega bara nóg að hitta boltann og setja hann á ramman og þá á hann að fara inn. Eftir að ég sé boltann fara inn þá var ég svo þreyttur að ég hafði ekki orku í að hlaupa, stóð bara kyrr og beið eftir Birki. Það að sjá svo leikmennina hlaupa að mér er eitthvað sem mann bara myndi dreyma um, en þetta var raunverulegt og algjörlega frábært.“
King Arnór #21
Arnór hefur aðeins fengið veður af því að Íslendingar séu gjörsamlega fótbolta-trylltir þessa dagana, bæði í Frakklandi og heima í Reykjanesbæ. „Á Twitter sá ég að það var búið að skrifa nafnið mitt á hringtorg heima. Það er gaman að geta glatt fólkið heima og gefið frá sér. Það gefur mér mikið að sjá fólk ánægt. Við eigum bara að halda áfram að láta okkur dreyma,“ sagði EM farinn Arnór að lokum.