Arnór Ingvi: Ekki viss um landsliðssæti en sáttur með frammistöðuna
Ég er ekki svo viss að ég sé búinn að tryggja mér sæti í landsliðshópnum fyrir EM í Frakklandi. Það eru svo margir góðir leikmenn en ég reyni að nýta mínar mínútur eins vel og ég get og leggja mig 100% fram,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu í viðtali við fotbolti.net en hann skoraði fyrsta mark Íslands gegn Grikklandi í vináttuleik þar ytra í gærkvöldi.
„Ég er þokkalega sáttur með mína frammistöðu. Fyrir markið hefði ég getað sett hann en boltinn fór yfir markið. Ég náði að bæta það upp tveimur mínútum seinna.“ Arnór hleypti von í íslenska liðið þegar það var tveimur mörkum undir þegar hann skoraði markið seint í fyrri hálfleik. Skömmu áður hafði hann átt glæsilegt skot af löngu færi en það endaði í þverslánni.
Flestir spekingar telja að Arnór Ingvi sé búinn að tryggja sig inn í landsliðshópinn sem fer á EM í Frakklandi en hann hefur skorað nokkur mörk í undirbúningsleikjunum, m.a. í síðustu tveimur.
Sjá videoviðtal fotbolta.net í heild við Arnór Ingva hér:
http://fotbolti.net/news/29-03-2016/arnor-ingvi-reyni-ad-nyta-minar-minutur