Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Árni Már í annað sinn á Ólympíuleikum
Árni var íþróttamaður Reykjanesbæjar árið 2009.
Þriðjudagur 24. júlí 2012 kl. 12:59

Árni Már í annað sinn á Ólympíuleikum

Árni Már Árnason sundmaður úr Njarðvík/ÍRB er á leið á sína aðra Ólympíuleika. Árni Már bætti nú nýverið eigið íslandsmet frá Ólympíuleikunum 2008 og náði um leið lágmörkum fyrir leikana í London. Árni synti á tímanum 22.53 á Canet-en-Roussillon sundmótinu í Frakklandi í júní, en átti 22.81 frá  ÓL 2008 sem er talsverð bæting í svona stuttri vegalengd.

Þessi bæting er jafnvel enn athyglisverðari og betri þegar tekið er tillit til þess að 2008 þá synti hann í svokölluðum „sundgalla“ en núna setti hann metið í venjulegri sundskýlu. Fyrir okkur venjulegan almenning sem heimsækir sundlaugina er Árni Már eins og stormsveipur sem æðir um laugina, svo mikill er hraðinn á kappanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árni Már sem á íslandsmetið í 50m skriðsundi, bæði í 25m og 50m laug, er tvímælalaust hraðasti sundmaður íslandssögunnar og kann afar vel við sig á stórmótum. Við íbúar í Reykjanesbæ fylgjumst því spennt með fulltrúa okkar, og vonumst til þess að nýtt íslandsmet í 50m skriðsundi líti dagsins ljós á Ólympíuleikvanginum í London þann 2. ágúst næstkomandi.