Arnar tryggði Keflavik sigur
Keflavík sigraði Grindavík 78-77 í hörkuspennandi leik í Reykjanesmótinu í körfuknattleik í kvöld. Framan af leik voru Keflvíkingar með forystuna í leiknum en gestirnir frá Grindavík sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik og komust fyrst yfir í leiknum í 3. leikhluta í stöðunni 68-69.
Þegar um 7 sekúndur voru til leiksloka áttu Grindvíkingar innkast undir sinni eigin körfu og staðan 76-77 Grindavík í vil. Svo vildi til að Grindvíkingar misstu frá sér boltann með því að Guðlaugur Eyjólfsson steig út af leikvellinum með knöttinn og boltinn því réttilega dæmdur til Keflavíkur. Innkastið tóku heimamenn þegar 4 sekúndur voru til leiksloka og fékk Arnar Freyr Jónsson boltann undir körfu Grindavíkur og gerði þar sigurkörfuna. Keflvíkingar uppskáru því sannkallaðan spennusigur í kvöld.
Jason Kalsow var stigahæstur Keflvíkinga með 18 stig en Magnús Gunnarsson var honum næstur með 16 stig.
Næsti leikur í Reykjanesmótinu er annað kvöld en þá taka Njarðvíkingar á móti Stjörnunni. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Ljónagryfjunni.
VF-mynd/ Jón Björn: Davíð Jónsson sækir að körfu UMFG, Guðlaugur Eyjólfsson er til varnar.
Skoða myndasafn frá leikjum Stjörnunnar og Njarðvíkur og Keflavíkur og Grindavíkur með því að smella hér.