Arnar Freyr meiddur: Hugsanlega frá út tímabilið
Bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson, leikmaður Keflavíkur í Iceland Express deild karla, verður hugsanlega ekki meira með Keflvíkingum á þessari leiktíð eftir að hann meiddist í leik gegn Hamri/Selfoss á sunnudag. Arnar fékk miðherjann George Byrd ofan á sig og lagðist mikill þungi á innanverðan hægri fótlegg Arnars. Ekki er ljóst á þessari stundu hver meiðslin eru en að öllum líkindum hefur hann skaddast á utanverðum liðböndum hægri fótar og einnig á liðþófa í hné. Þá kennir Arnar sér einnig meiðsla í ökkla.
Fyrir liggur að Arnar fari í myndatöku og nákvæmari skoðun og segir á vefsíðu Keflavíkur að ólíklegt þyki að hann muni leika meira með Keflavík á þessari leiktíð.
Fréttirnar koma sem reiðarslag fyrir Keflavíkurliðið sem hefur ekki náð að sýna sinn besta leik í vetur en þeir höfðu engu að síður góðan 92-99 sigur á Hamri/Selfoss í leiknum á sunnudag.