Arnar Freyr æfir með Keflvíkingum
Bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson hefur hafið æfingar með Keflvíkingum en eins og kunnugt er sagði hann skilið við BC Arhus í Danmörku og er nú kominn heim. Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur staðfesti við vefsíðuna Karfan.is að Arnar hefði mætt á sína fyrstu æfingu í gærkvöldi.
„Hann leit vel út þó að liðinn sé smá tími síðan hann spilaði síðast,“ sagði Sigurður en aðspurður hvort hann yrði með gegn Tindastól á föstudag sagði Sigurður að það væri ekki komið neitt lengra.
Arnar og kærasta hans Ingibjörg Jakobsdóttir gengu frá félagsskiptum til Keflvíkinga á dögunum. Þau gætu reynst félaginu mikill liðsstyrkur á lokasprettinum.