Árlegt vinabæjamót í golfi í Leirunni
-Fjórar þjóðir taka þátt í mótinu
Vinabæjamót í íþróttum var sett í Reykjanesbæ í gærmorgun. Á mótinu keppa börn og ungmenni frá vinabæjum Reykjanesbæjar, Kristiansand í Noregi, Trollhättan í Svíþjóð og Kerava í Finnlandi, auk bæjarbúa. Keppnisíþróttin í ár er golf og eru keppendurnir 13 til 16 ára gamlir.
Vinabæjamót hafa verið haldin árlega frá árinu 1973. Vinabæjaþjóðirnar skiptast á að halda mótin og í ár er það haldið í Reykjanesbæ. Að sögn Hafþórs Birgissonar íþrótta- og tómstundafulltrúa vill bærinn styðja við þær greinar þar sem byggja þarf upp barna- og unglingastarf eða þar sem félögin eru í þeirri uppbyggingu eins og raunin er hjá Golfklúbbi Suðurnesja.
Eftir setningu í gærmorgun var haldið í Leiruna til æfinga en sjálf keppnin var í dag. Um er að ræða punktamót þar sem keppendum var skipt eftir forgjöf. Vinabæjamótinu verður formlega slitið á fimmtudagskvöld og á föstudagsmorgun halda gestirnir úr landi, 26 keppendur. Frá Reykjanesbæ keppa 10 ungmenni. Meðfylgjandi myndir úr Leirunni tók Sólborg Guðbrandsdóttir.
Kinga Korpak, ungstirni úr Golfklúbbi Suðurnesja púttar hér á 18. flötinni. Veðrið lék við keppendur.