Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ari Steinn með sigurmark Keflvíkinga
Það var heldur betur kominn tími til að gleðjast yfir sigri hjá Keflavík. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 11. júlí 2024 kl. 22:19

Ari Steinn með sigurmark Keflvíkinga

Keflavík vann sigur á Gróttu í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Eftir að hafa lent marki undir í fyrri hálfleik komu Keflvíkingar sterkir til baka í þeim seinni og unnu að lokum með mörkum Sindra Snæs Magnússonar og Ara Steins Guðmundssonar.

Þetta var þriðji sigur Keflavíkur á tímabilinu og þeir færast upp í sjöunda sæti tímabundið en enn umferðinni lýkur á laugardag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Ari Steinn tryggði Keflavík langþráðan sigur.

Keflavík - Grótta 2:1

Keflavík byrjaði leikinn betur en þótt fyrri hálfleikur hafi ekki boðið upp á margt má segja að það hafi verið gegn gangi leiksins að Gróttumenn skildu leiða í hálfleik en þeir nýttu vel eina færi sitt (42').

Heimamenn höfðu skapað sér nokkur færi og rétt fyrir markið var það Rafal Stefán Daníelsson, markvörður Gróttu, sem kom í veg fyrir að Keflavík næði forystu þegar Sami Kamel komst í færi eftir kæruleysi í vörn Gróttu og tveimur mínútum eftir markið fékk Edon Osmani sannkallað dauðafæri eftir góða sendingu frá Ara Steini Guðmundssyni en hann hitti ekki á markið.

Keflvíkingar hófu seinni hálfleik með látum. Dagur Ingi Valsson fékk upplagt færi til að jafna á þriðju mínútu seinni hálfleik þegar hann slapp í gegn og Rafal Stefán einn til varnar en Dagur Ingi skaut framhjá.

Áfram héldu heimamenn að sækja og skapa sér færi og gestirnir í vandræðum. Það var Sindri Snær Magnússon sem jafnaði leikinn með glæsilegu skoti eftir að Keflvíkingar höfðu pressað á gestina og unnið boltann. Sindri lagði boltann fyrir sig og skoraði laglegt mark í fjærhornið (52'),

Keflvíkingar héldu áfram að ógna marki Gróttu en mörkin létu á sér standa – þar til Keflvíkingar unnu boltann aftur af gestunum hátt á vellinum. Sami Kamel lagði hann fyrir Ara Stein sem þrumaði á markið og þrátt fyrir að Rafal hafi náð til boltans dugði það ekki til (76'). Þrumuskot og Keflavík komið yfir.

Heimamenn fengu færi til að skora fleiri mörk en þau létu standa á sér. Dagur Ingi átti sláarskot, Kári Sigfússon kom inn á þegar tíu mínútur voru til leiksloka og það má segja að hann hafi fengið þvílík dauðafæri maður á móti markmanni en Rafal Stefán varði frá honum og svo átti hann þrumuskot í stöng eftir frábæra sendingu frá Frans Elvarssyni.

Skemmtileg tilþrif hjá Frans Elvarssyni þegar hann átti góða sendingu á Kára Sigfússon sem var á auðum sjó en tókst ekki að skora.

Þessi misnotkun á færum hefði getar reynst heimamönnum dýrkeypt því Grótta komst í óvænta sókn en þá varði Ásgeir Orri Magnússon vel og sá til þess að sigurinn félli Keflavíkurmegin.

Ásgeir Orri ver glæsilega á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, mætti með myndavélina og tók meðfylgjandi myndir.

Keflavík - Grótta (2:1) | Lengjudeild karla 11. júlí 2024