Arfaslakir Njarðvíkingar féllu fyrir hendi Hauka
Njarðvíkingar öttu kappi við Hauka að Ásvöllum nú fyrr í kvöld í 8-liða úrslitum Powerade-Bikarsins. Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur og komust fljótlega í 24-12 og fór Christopher Smith mikinn og var með 12 stig af 24. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 17-27 og Magnús Gunnarsson kominn með 11 stig, Christopher Smith með 12 og Friðrik Stefánsson með 4 stig. Aðrir leikmenn komust ekki á blað en Njarðvíkingar leituðu mikið inn á Smith í teignum. Þegar 5 mínútur voru eftir af öðrum leikhluta var staðan orðin 34-33 Haukum í vil og Njarðvík aðeins komnir með 6 stig í fjórðungnum. Liðin skiptust svo á forystu fram að leikhlé en Haukar höfðu yfir 46-43 í hálfleik og unnu seinni leikhlutann 29-16. Atkvæðamestir Njarðvíkinga í leikhlé voru Christopher Smith með 17 stig og Magnús Gunnarssson með 11. Fiðrik Stefánsson var svo með 7 stig.
Haukar byrjuðu svo seinni hálfleik einkar vel á móti slakri svæðisvörn Njarðvíkinga og náðu upp 10 stiga forystu 55-45. Njarðvíkingar virtust ekki vera að finna taktinn í sókninni og óöryggið töluvert hjá grænum. Njarðvík náði þó aðeins að komast í gang og staðan 68-60 Haukum í vil fyrir loka leikhlutann og ljóst að Njarðvíkingar þurftu að taka sig á ef ekki ætti illa að fara. Það ætlaði ekki að gera sig fyrir Njarðvík og Haukar sigldu framúr, hægt og bítandi. Þegar svo rúmar 4 míútur liðfu af leiknu voru Haukar komnir með 15 stiga forystu og virtist sem allur vindur væri úr Njarðvíkingum. Þegar 2 mínútur voru til leiksloka var munurinn orðinn 19 stig og ómögulegt fyrir Njarðvíkinga að rífa sig upp og bikardraumur þeirra úti.
Svo fór að lokum að Haukar höfðu sigur 98-84 og þeir komnir áfram í undanúrslit Powerade-Bikarsins. Atkvæðamestir Njarðvíkinga í leiknum voru þeir Christopher Smith með 36 stig og12 fráköst, Magnús Gunnarsson var með 15 stig og Friðrik með 9 stig og 8 fráköst. Aðrir leikmenn voru ekki að skila miklu hvað stigaskor varðar en Guðmundur Jónsson átti fínan leik í vörninni og var með 7 stolna bolta ásamt 6 stoðsendingum. Ljóst er að Njarðvíkingar verða alvarlega að taka sig saman í andlitinu ef þeir ætla sér að vera með í úrslitakeppninni í vor.