Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Arfaslakir Keflvíkingar sáu ekki til sólar gegn KR
Myndin er dæmigerð fyrir frammistöðu Keflvíkinga gegn KR. VF-myndir/pket.
Fimmtudagur 14. júní 2018 kl. 21:59

Arfaslakir Keflvíkingar sáu ekki til sólar gegn KR

Keflvíkingar voru yfirspilaðir af KR megnið af leik liðanna í Pepsi-deildinni í knattspyrnu á Nettó-vellinum í Keflavík í kvöld. Þeir röndóttu skoruðu fjögur mörk og hefðu hæglega getað skorað helmingi fleiri. Bítlabæjarliðið í neðsta sæti með þrjú stig og ekki unnið sigur í átta leikjum.

Fátt virðist koma í veg fyrir fall hjá Keflavík miðað við árangurinn þegar aðeins einum leik er ólokið í fyrri umferð Pepsi-deildarinnar. Spilamennska verið afar óstöðug. Eftir góðan leik gegn FH á útivelli í umferðinni á undan þar sem Keflavík náði 2-2 jafntefli léku Keflvíkingar einn lélegasta leik tímabilsins. Þeir sáu ekki til sólar gegn sterkum KR-ingum og fengu tvö fyrstu mörkin á sig eftir aðeins 5 mínútur og voru 0-3 undir í hálfleik.

KR bætti við marki í síðari hálfleik og heimamenn áttu líklega aðeins eitt gott marktækifæri þegar Lasse Rise tók hælspyrnu í þokkalegu færi en boltinn fór yfir. Tveir bráðungir Keflvíkingar komu inn á þegar leið á síðari hálfleikinn, þeir Ingimundur Guðnason sem hefur komið við sögu í leikjum á tímabilinu og síðan Davíð Snær Jóhannssonar (Guðmundssonar) en sá síðarnefndi er aðeins 16 ára gamall.

Stuðningsmenn Keflvíkur vonast til þess að hálfsmánaðar HM frí verði til þess að Guðlaugur Baldursson, þjálfari nái að þjappa liðinu saman og fara að spila betri knattspyrnu. Gerist það ekki er fátt annað sem bíður liðsins en Inkasso deildin á næsta ári. Liðið var arfaslakt í þessum leik og átti ekkert skilið og í raun heppið að fá ekki fleiri mörk á sig.

Sérfræðingar í Pepsimörkum Stöðvar 2 segja að baráttuleysið sé áberandi hjá Keflvíkingum. Vörn og markvarsla ekki í lagi og sjálfstraustið í lámarki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jeppe Hansen, framherji Keflvíkinga kom aftur í liðið eftir meiðsli en náði sér ekki á strik frekar en aðrir leikmenn liðsins.

Keflvíkingar í vörn eins og oft í þessum leik.