Annar skellur hjá Keflavík
Keflvíkingar léku í gær í fjórðu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu þegar þeir tóku á móti sprækum norðanmönnum í KA. Það hallaði talsvert á heimamenn í leiknum og annan leikinn í röð fékk Keflavík fjögur mörk á sig.
Það voru KA-menn sem komust yfir á 16. mínútu en Ástbjörn Þórðarson jafnaði leikinn fyrir Keflavík sex mínútum síðar (22’). Norðanmenn biðu ekki boðanna og náðu forystunni á ný strax á 25. mínútu. Þá tók KA augaspyrnu, sending á fjærstöng, skalli og mark.
Rétt undir lok fyrri hálfleiks var dæmd vítaspyrna á Keflavík en Sindri Kristinn Ólafsson valdi rétt horn og gerði mjög vel í að verja vel tekna vítaspyrnu. Keflvíkingar því aðeins einu marki undir í hálfleik, 1:2.
Heimamenn mættu aðeins hressari til seinni hálfleiks og byrjuðu hann ágætlega. Fyrstu mínúturnar sóttu þeir að marki heimamanna og Joey Gibbs var nálægt því að skora á 53. mínútu þegar markvörður KA fór í tvísýnan leiðangur og missti boltann til Gibbs – en á honum tókst að bjarga eigin klúðri með frábærri markvörslu.
KA bætti þriðja markinu við á 62. mínútu eftir að hafa tekið innkast út við hornfána. Keflvíkingar náðu ekki að koma boltanum í burtu og vildu fá dæmt brot á KA í aðdraganda marksins.
Við að fá markið á sig virtist allur vindur úr Keflvíkingum og KA bætti fjórða markinu við á lokamínútu leiksins, 1:4 lokatölur og það verður að segjast að sigur norðanmanna hafi verið sanngjarn.
Það er nokkuð ljóst að Eysteinn Húni og Sigurður Ragnar þurfa að leggjast yfir varnarleik Keflvíkinga sem hefur verið mjög ósannfærandi í byrjun móts. Keflavík hefur fengið á sig níu mörk í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar en aðeins skorað þrjú. Þá hafa Keflvíkingar verið duglegir að safna gulum spjöldum í upphafi leiktíðar og hafa fengið fimmtán slík í fjórum leikjum. Það gæti því farið að reyna á breidd hópsins þegar leikmenn þurfa að taka út sína refsingu.