Annar skellur hjá Grindavík
Grindvíkingar fengu annan skell á heimavelli í kvöld þegar Stjörnumenn komu í heimsókn en lokatölur urði 1-4 fyrir gestina. Þrjá leiki í röð hafa Grindvíkingar þurft að hirða boltann fjórum sinnum úr netinu og vörnin virðist hreinlega vera hriplek þess dagana. Grindvíkingar byrjuðu hins vegar betur í kvöld og það var tæplega hálf mínúta liðin þegar þegar Gavin Morrison kom Grindvíkingum yfir. Nokkrum mínútum síðar jafnaði Atli Jóhannsson þó fyrir Stjörnuna og þannig var staðan eftir ágætis fyrri hálfleik.
Eftir hlé mætti þó annað Grindavíkurlið til leiks. Atli Jóhannsson bætti við öðru marki fyrir Stjörnuna eftir að hann og Garðar Jóhannsson léku Grindavíkurvörnina grátt, þá virtist allt loft úr þeim gulklæddu. Tvö mörk fylgdu á næstu mínútum, en alls komu þessi þrjú mörk á 10 mínútna kafla og gerðu út um leikinn. Sú brekka sem blasti nú við Grindvíkingum var einfaldlega orðin of brött og þeir komust aldrei aftur í takt við leikinn.
Grindvíkingar voru ekki að skapa sér mikið af færum en Stjörnumenn nýttu sín færi afar vel og höfðu öll völd á vellinum eftir að forystan var orðin örugg. Það virkaði svona eins og Grindvíkingar væru fremur andlausir enda hafa úrslitin alls ekki verið þeim í hag að undanförnu. Grindvíkingar töpuðu 0-4 gegn Keflvíkingum á heimavelli sínum á dögunum og svo tapaði liðið 4-3 gegn Fram eftir að hafa leitt á tímabili með tveimur mörkum. Liðið er því á botninum með eitt stig eftir fjóra leiki.
Kennie Chopart skorar og Óskar og Ólafur Örn ná ekki að koma vönum við.
Atli Jóhanns skorar annað mark sitt fyrir gestina.
VF-Myndir Eyþór Sæmundsson