Annar sigur gegn Hollandi
 Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vann sinn annan sigur í röð í kvöld gegn Hollendingum, 82-75, eftir framlengdan leik í Groningen í Hollandi. Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma, 71-71 og sigruðu Íslendingar 11-4 í framlengingunni.
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vann sinn annan sigur í röð í kvöld gegn Hollendingum, 82-75, eftir framlengdan leik í Groningen í Hollandi. Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma, 71-71 og sigruðu Íslendingar 11-4 í framlengingunni. 
Leikurinn var jafn og spennandi en Hollendingar náðu mest 12 stiga forskoti. Í framlengingunni sigu Íslendingar fram úr og tryggðu sér góðan sigur, 82-75. 
„Strákarnir stóðu sig allir vel og var baráttan í liðinu til fyrirmyndar. Dagsskipunin var að vinna báða leikina og það tókst með ágætum. Við keyrðum á 12 leikmönnum í fyrri hálfleik og 11 í seinni og var ánægjulegt að sjá að leikur liðsins er í góðum málum sama hverjir eru inn á leikvellinum,“ sagði Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, í samtali við www.kki.is í kvöld.
Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 14 stig, næstur honum var Jón Arnór með 13 og Logi Gunnarsson gerði 10 stig. 
Íslenska liðið leikur næst gegn Kínverjum í Kína dagana 28. og 30. ágúst í Xian og Harbin.
Heimild: www.kki.is
 


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				