Annar leikurinn í Hólminum í kvöld
Keflavík og Snæfell mætast í sínum öðrum leik í úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Leikurinn hefst kl. 20:00 í Stykkishólmi og verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport.
Keflavík vann fyrsta leikinn 81-79 eftir spennuþrunginn lokasprett. Leikurinn var fjarri því það besta sem liðin hafa sýnt í úrslitakeppninni og ljóst að bæði lið eiga mikið inni. Staðan er 1-0 í einvíginu fyrir Keflavík og takist þeim að vinna í kvöld eiga þeir kost á því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á fimmtudag.
Keflvíkingar hafa verið að leika magnaða vörn í síðustu fjórum leikjum sínum. Bikarmeistarar Snæfells eru annálað varnarlið en fengu skerf af eigin meðali í Toyotahöllinni á laugardag. Það verður því fróðlegt að sjá hvað verður í kvöld og hvernig liðin koma stemmd til leiks.
Keflavík 1-0 Snæfell
Úrslit – Leikur 2
Fjárhúsið kl. 20:00 í kvöld