Annar Grindavíkursigur í höfn
Grindvíkingar slá hvergi af í 1. deild karla í knattspyrnu og í kvöld lögðu þeir Leikni 2-0 með mörkum frá þeim Guðmundi Andra Bjarnasyni og Scott Ramsey. Heil umferð fór fram í 1. deild karla í kvöld og að henni lokinni eru það Grindvíkingar og Fjarðabyggð sem eru jöfn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.
Reynismenn gerðu fína ferð til Eyja og lönduðu stigi eftir 1-1 jafntefli gegn heimamönnum. Hafsteinn Ingvar Rúnarsson kom Reyni í 1-0 þegar níu mínútur voru til leiksloka en heimamenn jöfnuðu metin þegar um mínúta var eftir með marki frá Páli Hjarðar.
Njarðvíkingar tóku á móti KA á Keflavíkurvelli og skildu liðin jöfn 1-1. Njarðvíkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og áttu hvert færið á fætur öðru en það voru gestirnir að Norðan sem komust í 1-0 með marki frá Hjalta Má Haukssyni í upphafi síðari hálfleiks. Alfreð Jóhannsson jafnaði metin í 1-1 fyrir Njarðvíkinga á 70. mínútu og þar við sat.
VF-mynd/