Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Annað stórtap gegn KR - Hver getur bjargað Keflvíkingum?
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var þungur á brún í gær.
Miðvikudagur 3. júní 2015 kl. 22:08

Annað stórtap gegn KR - Hver getur bjargað Keflvíkingum?

0-9 í síðustu tveimur leikjum og ekkert bólar á sigri

Keflvíkingar töpuðu í kvöld enn einum leik sínum í sumar og nú gegn ferskum KR-ingum í 32 liða úrslitum Borgunarbikarsins 0-5. Sjötta tapið í síðustu sjö leikjum er staðreynd og markatalan 3-19. Mjög háværar raddir eru um breytingar á stjórn liðsins og aðeins kraftaverk getur bjargað Kristjáni þjálfara.

Fyrsta mark leiksins kom á 15. mínútu og var fremur umdeilt þar sem að KR-ingar töldu sig hafa komið boltanum yfir línuna eftir atgang í teig Keflavíkur og sýndu það með látbragði og fengu markið dæmt. Ógjörningur var fyrir blaðamann að sjá hvort að boltinn hafi farið yfir línuna en línuvörðurinn virtist viss í sinni sök. Grétar Sigfinnur Sigurðsson var skráður fyrir markinu. Almar Ormarsson skoraði svo annað mark liðsins Á 41. mínútu eftir að Aron Bjarki Jósepsson átti fyrirgjöf sem var hreinsuð frá en Almar skoraði með skoti frá markteig. Vel að verki staðið. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áður en flautað var til hálfleiks dundi enn ein hörmungin yfir fyrir heimamenn þegar Unnar Már Unnarsson var rekinn af velli eftir að hafa fengið boltann í höndina að er virtist. Vítaspyrna var réttilega dæmd en beint rautt spjald var sennilega of harður dómur. Réttlætinu var svo fullnægt þegar Óskar Örn Hauksson misnotaði vítaspyrnuna og skaut hátt yfir. Staðan því 2-0 í hálfleik og útlitið vægast sagt dökkt fyrir Keflvíkinga sem höfðu ekki átt mikið í fyrri hálfleiknum og voru nú einum manni færri.

Kristján Guðmundsson gerði breytingar á liðinu í hálfleik þar sem hann m.a. tók Richard Arends, markmann liðsins, af velli og leyfði Sindra Kristni Ólafssyni að spreyta sig í síðari hálfleiknum. 

KR-ingar pressuðu stíft í byrjun seinni hálfleiks og uppskáru mark á 60. mínútu þegar Þorsteinn Már Ragnarsson hirrti frákast og skoraði af stuttu færi eftir að KR-ingar höfðu skallað í stöngina. 7. mínútum síðar kom fjórða markið og var það að verki Sören Frederiksen sem að þurfti þó tvær tilraunir til að koma boltanum framhjá Sindra í markinu sem hafði varið fyrra skotið mjög vel. 

Keflvíkingar fengu færi til að minnka muninn á 70. mínútu þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu en Hólmar Örn Rúnarsson setti boltann himinhátt yfir markið og var það orð á meðal manna að mikil líkindi hafi verið með spyrnu hans og Óskars í fyrri hálfleiknum. 

Í stað þess að breyta stöðunni í 1-4 voru það KR-ingar sem skoruðu síðasta mark leiksins þegar hinn 16 ára Guðmundur Andri Tryggvason Guðmundssonar skoraði með skalla eftir ágæta fyrirgjöf frá Aroni Bjarka. 

Þar með hafa Keflvíkingar lokið þátttöku sinni í Borgunarbikarnum þetta árið og geta því alfarið farið að einbeita sér að því að vinna sinn fyrsta leik í deildinni. Það ætti enginn að verða hissa á því að umræðan um það að farið sé að hitna undir Kristjáni Guðmundssyni sé orðin háværari. Á einhverjum tímapunkti þarf að íhuga alvarlega gera breytingar og verður að segjast eins og er að Keflvíkingar hafa ekki lagt fram nein sönnunargögn um að liðið sé að spila betur en það hefur gert fram að síðustu tveimur leikjum.