Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 20. mars 2001 kl. 09:00

Annað liðið lýkur tímabilinu í kvöld!

Bandaríkjamaðurinn Brenton Birmingham hefur leikið best Njarðvíkinga í úrslitakeppninni og ekkert launungamál að hans markmið er það sama og í upphafi tímabilsins, að verða Íslandsmeistari með Njarðvík.

Brenton, hvað gerðist í Borgarnesi á sunnudag?
"Leikurinn á sunnudag sýndi muninn á liði sem að berjast fyrir lífi sínu og öðru sem ætlar að taka því létt. Borgnesingar börðust frábærlega allan leikinn og við þurfum að læra að gera slíkt hið sama í hverjum leik. Vörnin hjá okkur hefur verið höfuðverkurinn í vetur, bæði fyrir og eftir áramót. Borgnesingar skoruðu 52 stig á okkur í fyrri hálfleik sem er of mikið. 82 stig ættu að nægja okkur til sigurs sé vörnin nægilega þétt."

Hvernig lýst þér á leikinn gegn Borgnesingum í kvöld?

"Í kvöld sjá áhangendur liðsins vonandi annað lið en það sem fór til Borgarness. Leikurinn í kvöld er eins og bikarleikur, það er allt lagt á línuna og aðeins sigurvegarinn heldur áfram. Annað liðið lýkur tímabilinu í kvöld og ef það á ekki að verða hlutskipti okkar þurfum við að sýna sama baráttuanda og Borgnesingar gerðu í síðasta leik."

Eru allir leikmenn liðsins heilir heilsu?

"Allir í ágætis ástandi utan þess að við vitum ekki í hvaða ástandi Teitur er eftir veikindin en hann hefur ekki æft síðan á fimmtudag. Ég á þó von á því að hann skili sínu eins og vanalega."
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024