Andy Pew heiðraður fyrir leik Þróttar og KV
Þróttur gerði markalaust jafntefli við botnlið KV í sautjándu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í gær.
Þróttur - KV 0:0
Hvorugt lið náði að koma boltanum í netið þótt þau hafi fengið færi til þess og niðurstaðan því markalaust jafntefli. Svekkjandi niðurstaða fyrir Þróttara sem eru aðeins þremur stigum frá toppliði Dalvíkur/Reynis en Þróttur sækir toppliðið heim í næstu umferð.
Fyrir leik var Andy Pew, fyrrum fyrirliði Þróttar, heiðraður fyrir framlag sitt til félagsins en hann hætti með Þrótti eftir síðasta tímabil. Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar, afhenti Pew blómvönd og áletraðan skjöld sem á stendur:
#fyrirVoga
ANDY PEW
One of the greatest servants Þróttur Vogum Club have ever had and thanks for everything.
Kær kveðja
Þróttur Vogum
Andy Pew er ein af stærri goðsögnum Þróttar en hann spilaði 85 leiki fyrir liðið á fjórum árum. Hann var fyrirliði liðsins öll árin og aðstoðarþjálfari í þrjú ár. Andy var íþróttamaður ársins í Vogum 2020 og að auki í liði ársins í 2. deild þrisvar sinnum á tíma sínum í Vogum.
Andy setti heldur betur mark sitt á félagið og verður alltaf í miklum metum í Vogum, segir á Facebook-síðu Þróttar.
Reynir - KFS 6:1
Reynismenn gefa ekkert eftir á toppi 3. deildar karla og unnu stórsigur á KFS í Sandgerði í gær.
Mörk Reynis skoruðu: Magnús Magnússon (3'), Bergþór Ingi Smárason (45' og 62'), Julio Cesar Fernandes (71'), Jón Gestur Ben Birgisson (82') og Ársæll Kristinn Björnsson (85').
Magni - Víðir 0:1
Víðismenn héldu á Grenivík í gær og unnu góðan baráttusigur á Magna.
Bessi Jóhannsson skoraði eina mark leiksins þegar hann skallaði fyrirgjöf Ara Steins Guðmundssonar í netið.
Víðir er í fjórða sæti deildarinnar með 29 stig. Reynismenn eru efstir með 38 stig, þá kemur Kormákur/Hvöt með 35 og Árbær með 30 stig.