Andy Pew er íþróttamaður Voga 2020
– Knattspyrnuliðið allt heiðrað sérstaklega
Fyrirliði knattspyrnuliðs Þróttar, Andrew James Dew, var valinn íþróttamaður Voga í gær. Andy er spilandi aðstoðarþjálfari Þróttara og hefur verið með liðinu síðan 2018. Andy er mikill leiðtogi innan vallar sem utan, frábær fyrirmynd og var valinn í úrvalslið 2. deildar á vefmiðlinum Fótbolti.net eftir síðasta tímabil, það voru fyrirliðar og þjálfarar deildarinnar sem sáu um valið.
Valið stóð á milli fimm íþróttamanna, aðrir voru þeir Adam Árni Róbertsson, Alexander Helgason, Rafal Stefán Daníelsson og Róbert Andri Drzymkowski.
Þróttarar heiðraðir
Meistaraflokkur Þróttar í knattspyrnu var heiðraður sérstaklega fyrir frábæran árangur á árinu en liðið fékk 41 stig í 2. deildinni í sumar, endaði í þriðja sæti og var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í næstefstu deild – sem er besti árangur í sögu félagsins. Hermann Hreiðarsson, þjálfari Þróttara, tók við viðurkenningunni við mikið lófaklapp. Knattspyrnuliðið vakti mikla athygli í sumar og var stemmningin í kringum það bæjarbúum til mikillar gleði og sóma.
Efnilegt íþróttafólk fékk viðurkenningu
Samhliða vali á íþróttamanni ársins fengu átta ungmenni viðurkenningu fyrir afrek sín á síðasta ári. Þau eru: Logi Friðriksson, fyrir knattspyrnu, Alexander Ívarsson, Óðinn Ástþórsson, Pálmar Óli Högnason og Andri Snær Guðlaugsson fyrir knattspyrnu, Keeghan Freyr Kristinsson og Bragi Hilmarsson fyrir júdó og þá fékk Tinna Róbertsdóttir viðurkenningu fyrir dans.
Þessi ungmenni hafa skarað fram úr í þeim greinum sem þau leggja stund á og hafa sýnt að þau eru góðar fyrirmyndir fyrir önnur ungmenni.
Íþróttastarfið í Vogunum stendur augljóslega í miklum blóma, í bænum er hægt að iðka fjölmargar greinar og hafa hinar ýmsu deildir verið að unga út afreksfólki.
Meðfylgjandi tók Guðmundur Stefán Gunnarsson þegar viðurkenningar voru afhentar.