Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Andri Rúnar skoraði 15. markið í jafntefli við KR
Andri Rún­ar Bjarna­son sá svo til þess að jafna viðureignina skömmu fyrir leikhlé með gríðarlega föstu og fallegu skoti í þverslá og inn.
Sunnudagur 27. ágúst 2017 kl. 20:21

Andri Rúnar skoraði 15. markið í jafntefli við KR

Grindavík og KR sættust á jafntefli á Grindavíkurvelli nú síðdegis í leik í 17. umferð Pepsi-deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Úrslitin voru 2:2.

Grindvíkingar sóttu nokkuð stíft í fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur færi. Það voru hins vegar gestirnir sem urðu fyrri til að skora eftir vandræðagang í vörn Grindvíkinga. Skúli Jón Friðgeirs­son renndi boltanum á André Bjer­rega­ard sem skoraði lag­legt mark KR.

Andri Rún­ar Bjarna­son sá svo til þess að jafna viðureignina skömmu fyrir leikhlé með gríðarlega föstu og fallegu skoti í þverslá og inn. Algerlega óverjandi bolti og Andri að skora sitt 15. mark í sumar. Markahæsti maður deildarinnar þar á ferð.

Grindvíkingar komust svo yfir á 75. mínútu þegar William Daniels skoraði annað mark Grindavíkur. Glæsilegt mark eftir sendingu frá Gunnari Þorsteinssyni sem Andri Rúnar kom svo fyrir fætur Williams. Fögnuður heimamanna var mikill. Þeir voru hins vegar ekki lengi í paradís því KR-ingar jöfnuðu fimm mínútum síðar með marki Guðmundar Andra Tryggvasonar.

Lokamínúturnar voru svo æsispennandi en jafntefli varð niðurstaðan og kannski bara sanngjörn úrslit tveggja jafnra liða í leiknum.

Grindavík er nú í 3. sæti deildarinnar með 25 stig.

Markvörður KR átti ekki séns í skot Andra þar sem boltinn söng í netinu. VF-myndir: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

William Daniels skoraði annað mark Grindavíkur og sýndi magavöðvana...