Andri Rúnar og Linda best
- Grindvíkingar gera upp knattspyrnusumarið
Lokahóf knattspyrnudeildar Grindavíkur fór fram um síðastliðna helgi og var sumarið gert upp með viðurkenningum og verðlaunum.
Andri Rúnar Bjarnason var valinn besti leikmaður karla ásamt því að vera sá markahæsti. Í öðru sæti í valinu um besta leikmanninn var Kristijan Jajalo og í þriðja sæti var Sam Hewson, en hann var einnig valinn mikilvægasti leikmaðurinn.
Linda Eshun var valin besti leikmaður kvenna, í öðru sæti var Rilani Aguiar Da Silva og í því þriðja Viviane Domingues. Ísabel Jasmín Almarsdóttir var efnilegust og var Sara Hrund Helgadóttir mikilvægasti leikmaðurinn. Markahæstu leikmenn Grindavíkur í Pepsi-deild kvenna í sumar voru þær Rilani Aguiar Da Silva og Carolina Mendes.
Sara Hrund Helgadóttir var einnig heiðruð um kvöldið fyrir sitt framlag fyrir félagið en hún þurfti að leggja takkaskóna á hilluna fyrr í sumar vegna höfuðmeiðsla.
Í öðrum flokki karla var besti leikmaðurinn Sigurður Bjartur Hallsson en hann var einnig sá markahæsti.
Liðstjórar Grindavíkur, þeir Arnar Már Ólafsson og Guðmundur Ingi Guðmundsson, fengu viðurkenningu fyrir ómetanlegt starf fyrir félagið.