Andlega hliðin klikkaði - segir Jón Halldór þjálfari Keflavíkur
Keflavíkurstúlkur máttu sjá á eftir Subway bikarnum í körfubolta kvenna þegar þær töpuðu fyrir KR í úrslitaleik í Laugardalshöllinni. Lokatölur urðu 76-60 fyrir Vesturbæjarliðið og Jón H. Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur sagði að stelpurnar hefðu klikkað á andlegu hliðinnni, ekki líkamlegu. „Þetta er ótrúlegt og ömurlegt. Stelpurnar voru bara hræddar við andstæðinga sína og uppskáru samkvæmt því.
Keflavíkurstúlkurnar komu gríðarlega sterkar til leiks í byrjun seinni hálfleiks og náðu að jafna leikinn en í fjórða leikhluta brast úthald og KR stúlkur léku á alls oddi og kláruðu leikinn nokkuð örugglega. Sárgrætilegt fyrir Keflavík sem hafði komið svo sterkt inn í leikinn eftir svo slæma byrjun.
„Þetta var bara fjandans hausinn. Ég skil þetta ekki. Við komum bara ekki tilbúnar í þennan leik, vanmátum þær og lékum aldrei eins og við gerum best,“ sagði Birna Valgarðsdóttir eftir leikinn í Höllinni í dag.
Bryndís Guðmundsdóttir skoraði mest hjá Keflavík, 14 stig og þær Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir skoruðu 11 stig hvor. „Við náðum aldrei að spila okkar leik, hvorki í vörn eða sókn og því fór sem fór,“ sagði Bryndís eftir leikinn.
Þegar Jón þjálfari var spurður um framhaldið í deildinni sagði hann. „Ef við ætlum að spila svona þá getum við gleymt deildinni.“
Birna skorar tvö af ellefu stigum sínum í leiknum.
VF-mynd/pket. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði mest í slöku Keflavíkurliði og var með 14 stig.