Andlausir Keflvíkingar tapa heima
Keflavík tapaði á heimavelli gegn ÍA, 0-1, í kvöld. Liðin berjast nú harðri baráttu um þriðja sætið í Landsbankadeildinni og var leikur kvöldsins því sannkallaður sex stiga leikur.
Ekki blés byrlega á liðin í upphafi leiks því hellidemba brast á um leið og leikmenn komu út á grasið. Fjótlega stytti þó upp, en völlurinn var blautur og háll yfirferðar og setti það mark sinn á leikinn oft og tíðum.
Fyrsta færi leiksins kom á 5. mínútu þegar Hólmar Örn Rúnarsson óð upp hægri kantinn og sendi boltann inn í teiginn. Þar beið sænska sleggjan, Kenneth Gustavsson, sem átti skalla af stuttu færi, en Bjarki Guðmundsson markvörður ÍA varði laglega í horn.
Eftir það datt leikurin niður í algera ládeyðu þar sem lítið var um sóknartilburði, en Skagamenn voru þó sýnu meira með boltann. Heimamenn voru bitlausir fram á við fyrir utan Hólmar sem lét oft ljós sitt skína á kantinum.
Á 35. mínútu átti Jón Vilhelm Ákason gott skot úr aukaspyrnu af um 25m færi en skot hans fór naumlega framhjá. Það var eina markverða færi Skagamanna í fyrri hálfleik.
Rétt fyrir hálfleik fékk Hörður Sveinsson gullið tækifæri til að koma sínum mönnum yfir. Baldur Sigurðsson tætti sig þá í gegnum vörn ÍA og renndi boltanum á Hörð en Bjarki varði fast skot hans. Boltinn fór út í teig þar sem Bjarki náði hinum eftir nokkuð klafs við fyrrum félaga sinn úr bikarliði Keflavíkur 1997, Guðmund Steinarsson.
Stuttu síðar héldu liðin í klefa eftir daufan fyrri háflleik. ÍA voru meira með boltann, en þau fáu færi sem litu dagsins ljós voru Keflvíkinga.
Þannig gekk leikurinn framan af seinni hálfleik. ÍA var meira með boltann en Keflvíkingar komu sér í fleiri færi. Þar var Hólmar fremstur í flokki, en hann átti eitt skot yfir markið af stuttu færi og annað sem Bjarki varði vel niður við stöng.
Þá átti Guðmundur ágætt skot úr aukaspyrnu af löngu færi og eitt einkennilegasta færi sumarsins fékk hann á 65. mínútu. Þá skaut Hörður af um 25m færi, en knötturinnn fór himinhátt upp í loft. Leikmenn héldu að hann hefði farið útaf og gekk Bjarki af marklínu sinni, en boltinn lenti inn í teig þar sem Reynir Leósson mátti hafa sig allan við til að stöva Guðmund frá því að skalla í autt netið. Reynir var mjög traustur í kvöld og stýrði vörninni vel í fjarveru Gunnlaugs Jónssonar félaga síns sem var í leikbanni.
Á 68. mínútu gerðust Skagamenn aðgangsharðir við mark heimamanna og áttu tvö færi með stuttu millibili, en allt kom fyrir ekki.
Dean Martin, hægri kantari ÍA, tók um þetta leyti við sér og olli miklum usla í vörn Keflavíkur með hlaupum sínum. Það ver upp úr einu slíku sem sigurmark þeirra kom, en hann sneri Issa Abbdulkadir af sér og sendi vinstrifótarsendingu inn í teiginn þar sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson var einn og óvaldaður og skallaði í netið framhjá Ómari Jóhannssyni.
Það sem eftir lifði leiks var lítið um að vera. Keflvíkingar virkuðu andlausir og gerðu enga alvöru hríð að marki gestanna og máttu því sætta sig við tap og gáfu 3. sætið þar með eftir.
“Það var dapurt að tapa þessum leik,” sagði Hólmar Örn í samtali við Víkurfréttir í leikslok. “Við þurftum bara að nota færin okkar. Ég fékk sjálfur tvö sem ég hfði getað notað og það er hundleiðinlegt að geta ekki spilað vel fyrir framan fólkið sem kemur hingað til að horfa á okkur.”
Kristján Guðmundsson, þjálfari, var allt annað en sáttur við frammistöðu sinna manna á vellinum. “Þetta var bara illa gert hjá okkur í kvöld. Við vorum þungir og stemmningslausir og einhvernvegin ekki tilbúnir í þetta. Það var engin gleði í þessu hjá okkur og við getum ekki spilað vel ef við höfum ekki gaman af leiknum.”
VF-myndir/Þorgils