AMÍ: Sigurganga ÍRB rofin
Fimm ára sigurganga ÍRB var rofin þegar Sundfélagið Ægir hrósaði sigri á Aldursflokkameistaramóti Íslands í sundi (AMÍ) sem fór fram á Akureyri um helgina.
Ægir fékk 1163 stig, en ÍRB 1108. SH varð í þriðja sæti með 815 stig.
Margir einstakir sundmenn úr röðum ÍRB fengu viðurkenningar fyrir frammistöðu sína á mótinu. Ólöf Edda Eðvarðsdóttir var stigahæsta 11-12 ára meyjan á mótinu, en hún átti hreint út sagt frábært mót og vann sjö af þeim átta greinum sem hún keppti í.
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir var valin í unglingalandslið SSÍ sem heldur til keppni í Tampere í Finnlandi í næsta mánuði, og Sindri Þór Jakobsson var valinn efnilegasti ungi sundmaður SSÍ fyrir framúrskarandi árangur á sl. sundári.
Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að verja titilinn enn einu sinni óska ÍRB-liðar Ægi til hamingju með titilinn, en stefnan er sett á að bikarinn komu aftur í Reykjanesbæ að ári.
Mynd/odinn.is-Sævar Sig.