Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ameobi með sigurmark Grindvíkinga í uppbótartíma
Þriðjudagur 26. júní 2012 kl. 09:00

Ameobi með sigurmark Grindvíkinga í uppbótartíma




Heimamenn í KA tóku á móti Grindavík í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins á Akureyrarvelli í gær. Það var nokkuð ljóst fyrir leik að heimamenn ættu verðugt verkefni fyrir höndum enda þótt að byrjun Grindavíkur á þessu tímabili hafi ekki verið góð spilar liðið í næstu deild fyrir ofan KA.

Gæðamunur þessara lið var mjög svo áberandi fyrstu 30 mínútur leiksins, Grindvíkingar áttu algjörlega leikinn. Strax á sjöttu mínútu leiksins komust gestirnir yfir en þar var á ferð Björn Berg Bryde með skalla eftir hornspyrnu. Áfram héldu gestirnir að pressa á vörn KA og dældu m.a. boltum í röðum inn í teig heimamanna en Gunnar Valur og Haukur Hinriksson sem voru miðverðir KA í dag stóðu fyrir sínu. Gunnar Valur átti að vísu nokkuð furðuleg tilþrif á 22. mínútu. Boltinn barst þá til hans við markteigshornið í vítateig KA og Gunnar ætlaði að hreinsa boltann kröftuglega frá marki en það gekk ekki betur en svo að hann þrumaði boltanum í eigið mark.

Það var ekki fyrr en rétt undir lok fyrri hálfleiks sem heimamenn í KA virtust taka þá ákvörðun að vera með í leik dagsins og þeir voru ekki lengi að uppskera. Hallgrímur Mar átti þá sendingu fyrir markið þar sem Jóhann Helgason var mættur fyrstur og stangaði boltann í netið. Sólin virtist vera að stríða Óskari í marki Grindavíkur en hann kom út úr markinu og ætlaði sér að kýla boltann frá en endaði með hnefann í andlitinu á Jóhanni rétt eftir að hann kom boltanum í netið. Jóhann Helgason kom samt aftur inn en svo var honum skipt útaf í hálfleik.

Lokasprettur hálfleiksins var þó ennþá eftir og hann var lítið annað en magnaður. Valgeir Valgeirsson dæmdi þá óbeina aukaspyrnu á Ólaf Örn fyrir það að senda boltann aftur á Óskar í markinu. Spyrnan var tekin stutt á Brian Gilmour sem átti laglegt skot yfir Óskar og í þverslá, þaðan barst boltinn út í teig á Gunnar Val sem átti skalla aftur í þverslá áður en Grindvíkingar hreinsuðu í horn. Eftir hornið barst boltinn á Davíð Rúnar sem átti skot sem Ray Anthony bjargaði á línu áður en Valgeir flautaði til hálfleiks.

Heimamenn í KA byrjuðu seinni hálfleikinn nokkuð svipað og þeir enduðu þann fyrri og sóttu af krafti. Bjarki Baldvinsson fékk þá líklegast besta færi leiksins þegar boltinn barst til hans stutt frá vítapunktinum. Af einhverjum furðulegum ástæðum var hann algjörlega aleinn og hafði nægan tíma til að leggja boltann fyrir sig og skjóta en skotið var virkilega lélegt og beint á Óskar í markinu.

Eftir þetta jafnaðist leikurinn nokkuð og róaðist. Ameobi átti þó glæsilegt skot frá vítateigsboganum á 65. mínútu sem endaði í þverslá en eftir það tóku heimamenn aftur við stjórn leiksins. David Disztl lét lítið fyrir sér fara í leiknum en á 70. mínútu fékk hann boltann til sín í vítateig Grindavíkur, vippaði boltanum upp í loft og framhjá varnarmanni sem greip í Disztl sem féll og fékk víti. Brian Gilmour tók spyrnuna en aftur var það þversláin sem bjargaði Grindavík.

Jöfnunarmarkið kom svo á 88. mínútu, Gunnar Örvar slapp þá einn í gegn og gerði ekki nein mistök. Kláraði færið eins og fagmaður, vippaði yfir/framhjá Óskari í marki Grindavíkur. Allt virtist vera að stefna í framlengingu en þá kom sigurmarkið þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Boltinn barst til Ameobi eftir innkast og hann gerði ekki nein mistök og kom boltanum í netið. Niðurstaðan því 2-3 sigur Grindavíkur sem eru komnir í 8 liða úrslit á meðan leikmenn KA sitja eftir með sárt ennið.

Frétt frá fótbolti.net


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024