Alltaf stefnt á Ólympíuleikana
– segir Eva Margrét Falsdóttir, íþróttakona Reykjanesbæjar 2022
Víkurfréttir ræddu stuttlega við Evu Margréti Falsdóttur þegar búið var að opinbera hana sem íþróttakonu Reykjanesbæjar 2022.
„Ég set mér alltaf einhver markmið, þá hefur maður eitthvað til að setfna að. Íslandsmótið er eitt af þeim, maður vill alltaf gera best þar. Svo er ég með mjög góðan þjálfara, Steindór Gunnarsson sem drífur mig áfram,“ segir Eva Margrét Falsdóttir, Íþróttakona Reykjanesbæjar 2022.
Hún segir helstu markmiðin fyrir 2023 að komast inn á stærstu mótin. „Evrópumeistaramótið, heimsmeistaramótið og allt það, því þetta var síðasta árið mitt í unglingaflokki. Að komast á þessi mót og vinna fleiri Íslandsmeistaratitla,“ sundkonan unga.
Þegar þú lítur yfir síðasta ár, ertu ánægð með árangurinn?
„Já, ég vann marga Íslandsmeistaratitla. Það geta ekki allir gert það svo ég er nokkuð sátt.“
Ertu farin að hugsa eitthvað lengra, ertu að velta risamótum eins og Ólympíuleikunum fyrir þér?
„Já, það hefur eiginlega alltaf verið markmið að komast inn á Ólympíuleikana.“
Eva og annað sundfólk leggur sérstaklega mikið á sig til að ná árangri í sinni íþrótt og er gjarnan mætt á æfingar eldsnemma á morgnana.
„Við æfum níu sinnum í viku, í lauginni við Sunnubraut, svo lyftum við þrisvar til fjórum sinnum í viku. Við æfum þrisvar í viku á morgnana og erum þá í svona einn og hálfan til tvo tíma, svo eru sex aðrar sundæfingar þannig að þetta tekur mikinn tíma – það þarf mikinn metnað og manni þarf að þykja gaman að þessu til að geta vaknað á æfingu klukkan fimm á morgnana. Svo er ég í framhaldsskóla, sem er líka erfitt en mér gengur alveg vel.“
Hvernig gengur að koma þessu öllu saman, æfingum og námi? Þarftu ekki að fá að vera unglingur líka?
„Jú, það er náttúrlega ekkert rosalega mikill tími til þess en fyrstu tvö árin eru alltaf aðeins erfiðari. Nú byrjar þetta að vera aðeins auðveldara í skólanum, vonandi.“
Er stóri draumurinn að verða alvöru keppnismanneskja í útlöndum?
„Já, algerlega. Ég er samt ekki alveg búin að plana hvert ég ætla að fara, mig langar kannski til Danmerkur til að ná aðeins betri árangri – en svo er alveg fínt að vera heima og ná sem bestum árangri hérna,“ segir Eva Margrét sem að lokum þakkaði þjálfaranum sínum, foreldrum, ömmum og afa ... eiginlega öllum í kringum sig, fyrir að styðja dyggilega við sig.
Myndskeið frá afhendingunni og viðtal við Evu Margréti má sjá í spilaranum hér að neðan.