Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Allt sem gat klikkað hefur klikkað“
Jóhann Þór Ólafsson. VF-mynd: Eyþór Sæm.
Föstudagur 3. febrúar 2017 kl. 06:30

„Allt sem gat klikkað hefur klikkað“

-Segir Jóhann Þór Ólafsson, sem nýlega tók við starfi þjálfara kvennaliðs Grindavíkur, líklega tímabundið.

„Liðsandinn og mórallinn í liðinu er nánast upp á tíu og það er kannski það furðulegasta við þetta allt saman. Ég veit ekki alveg hvað það er sem veldur þessu,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, sem fyllir nú skarð Bjarna Magnússonar sem þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í hans fjarveru, aðspurður hvað valdi slöku gengi liðsins í vetur. Fyrir leik gærdagsins var Grindavík með þrjá sigra en fimmtán töp það sem af er tímabili og situr neðst á botni deildarinnar.

Liðið hefur glímt við þjálfaraskipti, meiðsli leikmanna og um jólin misstu þær sinn besta leikmann, Bandaríkjakonuna Ashley Grimes, en hún tilkynnti liðinu að hún kæmi ekki aftur til Íslands eftir jólafrí. Finna þurfti nýjan leikmann í hennar stað og hefur liðið nú spilað fjóra leiki án kana þar sem atvinnuleyfisumsókn Angelu Rodriguez hefur ekki farið í gegn. Að sögn Lórenz Óla Ólasonar, formanns körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, kom í ljós að sakavottorð frá Þýskalandi vantaði inn í umsóknina, en Rodriguez spilaði í Þýsku deildinni á síðasta tímabili. Hún er með bandarískt og mexíkóskt ríkisfang, getur spilað stöðu leikstjórnanda og bakvarðar og hefur meðal annars spilað með mexíkóska landsliðinu. Hún hefur nú æft með Grindavík í þrjár vikur og segir Jóhann hana lofa nokkuð góðu. Þó sé aldrei hægt að segja fyrr en á hólminn sé komið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurður hvort reyndustu leikmenn liðsins þurfi að stíga meira upp segir hann það mega vera. „Já, ábyrgðin liggur auðvitað að einhverju leyti hjá leikmönnum líka og það er kannski hægt að klína einhverju á þær reynslumestu. En ég er tiltölulega nýkominn inn í þetta og það hefur gengið á ýmsu, þjálfaraskipti og meiðsli til dæmis.“ Aðspurður hvar styrkleikar liðsins liggi segir Jóhann liðið þurfa að finna sína styrkleika, en að hópurinn sé skipaður reynsluboltum og yngri leikmönnum í bland og að það ætti að vera styrkur. „Það hefur samt ekki gengið nógu vel í vetur og allt sem gat klikkað hefur klikkað hingað til. Við verðum bara að taka einn leik í einu. Þann tíma sem ég hef verið með liðið hef ég séð framfarir og ég vona bara að það haldi áfram. Nú verðum við að fara að vinna leiki. Við tökum það góða úr síðustu leikjum og vinnum með það,“ segir Jóhann.