Allt jafnt í einvígi Njarðvíkur og Þórs
Njarðvíkingar töpuðu naumlega í Þorlákshöfn þegar þeir mættu Þórsurum í annarri umferð átta liða úrslita Subway-deildar karla í kvöld og einvígi liðanna því orðið jafnt, 1:1. Þór leiddi leikinn löngum en Njarðvík jafnaði undir lokin en Þórsarar reyndust sterkari aðilinn í lokin.
Þór Þorlákshöfn - Njarðvík 95:92
(30:19 | 18:27 | 25:20 | 22:26)
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og leiddu með ellefu stigum eftir fyrsta leikhluta (30:19).
Allt annað var uppi á teningunum hjá Njarðvíkingum í öðrum leikhluta og þeir söxuðu jafnt og þétt á forskotið. Þegar innan við hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik jafnaði Wayne Lautier-Ogunleye í 46:46 en heimamenn áttu síðasta orðið fyrir hlé og fóru með tvö stig í farteskinu til hálfleiks. (48:46).
Þriðja leikhluta byrjuðu Þórsarar með þristi og tveimur tvistum og aftur drógust Njarðvíkingar aftur úr og þar varð hlutskipti þeirra að elta allan þriðja leikhluta sem endaði í stöðunni 73:66 fyrir Þór.
Njarðvíkingar börðust við að jafna leikinn og þeir náðu muninum í þrjú stig snemma í fjórða leikhluta (77:74). Hins vegar dró aftur í sundur með liðunum og heimamenn komust í 83:74.
Þá kom góður kafli hjá Njarðvíkingum þar sem Lautier-Ogunleye setti niður tíu stig og Domynikas Milka setti niður eitt vítakast, staðan skyndilega 83:85 fyrir Njarðvík og rúmlega þrjár mínútur til leiksloka.
Heimamenn reyndust svo sterkari á lokasprettinum og unnu þriggja stiga sigur að lokum (95:92). Þeir jöfnuðu þar með einvígið í 1:1 en fyrra liðið til að vinna þrjá leiki fer áfram í næstu umferð.
Stig Njarðvíkur: Dwayne Lautier-Ogunleye 24 stig, Domynikas Milka 23 stig, Þorvaldur Orri Árnason 19 stig, Chaz Williams 17 stig, Mario Matasovic 6 stig og Maciej Baginski 3 stig.