Allt er þegar þrennt er!
Grindavík leikur til bikarúrslita á sunnudag
Það er ekki í boði að koma heim til Grindavíkur með fjórða bikarsilfrið segir Jovana Lilja Stefánsdóttir fyrirliði Grindavíkur sem á sunnudag mætir Íslands- og bikarmeisturum Hauka í úrslitum Lýsingarbikars kvenna í körfuknattleik. Leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni og hefst kl. 14:00. Leikurinn verður fjórði bikarúrslitaleikur kvennaliðs Grindavíkur sem ávallt hafa hafnað í 2. sæti. Á sunnudag leikur Jovana Lilja sinn þriðja bikarúrslitaleik á ferlinum og ætlar sér alls ekki að bæta við þriðja bikarsilfrinu í safnið.
,,Auðvitað er maður þreyttur á silfrinu í Höllinni, það er svekkjandi. Nú er ekki í boði að tapa í annað sinn fyrir Haukum í bikarúrslitum, allt er þegar þrennt er,” sagði Jovana hress í bragði en þetta verður þriðja tilraun Jovönu til þess að landa bikargulli. ,,Mér finnst við með meiri breidd en Haukar og við eigum að geta keyrt aðeins á þær en Haukar hafa stóra leikmenn sem minna er af hjá okkur. Það er því ákjósanlegt að hleypa hraðanum upp í leiknum, spila góða vörn og fá auðveldar körfur,” sagði Jovana og viðurkenndi að síðustu misseri hefði bikarúrslitaleikurinn verði henni ofarlega í huga.
,,Maður hefur samt þurft að setja bikarleikinn aðeins á bið út af deildarleikjum en ég er búin að hugsa mikið um leikinn,” sagði Jovana sem átti von á því að Grindvíkingar myndu gera eitthvað skemmtilegt saman til að efla andann í hópnum fyrir leik. ,,Við erum vanar að gera eitthvað saman fyrir svona leiki, fara að borða saman og peppa liðið aðeins upp. Sjálf reyni ég að vakna tímanlega á leikdegi en ekki of snemma. Ég hugsa ekki mikið um leikinn yfir daginn, hef ekki lagt það í vana minn því mér hefur fundist það truflandi. Ég tek mér nú samt smá tíma í að spá í þessu, allt er gott í hófi,” sagði Jovana en hverju má búast við af Haukum á sunnudag?
,,Ég held að Haukar komi dýrvitlausar í þennan leik, þetta er bikarúrslitaleikur og við búumst ekki við neinu öðru af þeim. Við vitum hvað við þurfum til að vinnan þennan leik, ef við gerum það sem Igor leggur fyrir okkur þá vinnum við þennan leik. Við erum sjálfum okkur verstar og bestar. Það er draumur hvers körfuboltamanns að leika til bikarúrslita í Höllinni og við förum ekki þangað til að koma heim til Grindavíkur með silfur fyrir okkur og alla sem koma að körfunni í Grindavík. Við munum gera okkar besta til að taka dolluna núna.”
VF-Mynd/ [email protected] – Grindavíkurkonur á æfingu í Röstinni.