Allt annað að sjá B-salinn
Íþróttafólk og þá sérstaklega körfuknattleiksdeild Keflavíkur fagnaði á miðvikudaginn þeim langþráða áfanga að nýtt gólfefni var komið á svokallaðan B-sal í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Parketgólfið er af sömu gerð og í A-salnum. Að auki voru settar upp nýjar körfur og mörk og salurinn málaður.
Það voru nokkrir fulltrúar yngri flokka körfuknattleiksdeildar Keflavíkur sem fengu þann heiður að vígja parketgólfið með stuttum leik sem fram fór í hálfleik á fyrsta karlaleiknum í Ljósanæturmótinu milli Keflavíkur og Grindavíkur.
Hafsteinn Ingibergsson forstöðumaður hússins hélt stutta tölu við þetta tækifæri og sýndi viðstöddum part af gamla gólfdúknum, sem greinilega var mjög samanþjappaður og svo sýnishorn af nýja parketgólfinu og undirlagi þess. Hafsteinn vildi koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem komu að þessu verki og nefndi sértaklega fyrirtækin Parket og gólf ehf og Horn í horn sem lagði gólfið, ásamt því að fjarlægja gamla dúkinn.
Heildarkostnaður við endurnýjun salarins nam rúmum 15 milljónum króna.
Svona leit salurinn út fyrir breytingar.