Allt á suðupunkti í Ljónagryfjunni
Leikmönnum var heitt í hamsi í Suðurnesjaslag Njarðvíkur og Grindavíkur í Subway-deild karla sem var leikinn í Ljónagryfjunni í kvöld. Gestirnir byrjuðu betur og höfðu að lokum sterkan sigur í leik þar sem hvorugt lið var tilbúið að gefa tommu eftir og lenti leikmönnum liðanna nokkrum sinnum saman.
Njarðvík - Grindavík 80:85
(12:24, 28:23, 24:21, 16:17)
Grindvíkingar mættu fullir af orku og sjálfstrausti í leikinn og þeir byrjuðu hann af krafti. Gestirnir komust fimmtán stigum fram úr Njarðvíkingum (8:23) og höfðu tólf stiga forskot (12:24) þegar fyrsta leikhluta lauk. Njarðvíkingar svöruðu fyrir sig í öðrum leikhluta og náðu að vinna forskotið niður í þrjú stig með góðri rispu í byrjun leikhlutans (22:25). Eftir það var allt í járnum en gestirnir héldu forskoti út hálfleikinn þótt heimamenn næðu að skera það niður í sjö stig, staðan 40:47 í hálfleik.
Njarðvíkingar héldu áfram að saxa á forskotið og í þriðja leikhluta var það komið niður í tvö stig (53:55). Njarðvíkingar reyndi hvað þeir gátu að jafna leikinn en gestirnir börðust áfram og komust aftur í 53:62 en þá kom góður kafli heimamanna og þeir skoruðu átta stig til að minnka muninn í eitt stig (61:62).
Allt var í járnum þegar komið var í fjórða leikhluta. Grindvíkingar leiddu með fjórum stigum í upphafi hans (64:68) en Nicholas Richotti gerði tvö stig og fékk vítakast að auki til að minnka muninn í eitt stig. Í kjölfarið setti Dedrick Basile niður þrist og kom heimamönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum (70:68). Gestirnir gáfu allt í lokamínúturnar og náðu að landa mikilvægum fimm stiga sigri að lokum (80:85).
Bragi Guðmundsson og Ólafur Ólafsson voru gríðarleg mikilvægir í sigri Grindvíkinga en Bragi var með nítján stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar á Ólafur stal boltanum níu sinnum, tók fimm fráköst og setti auk þess niður átján stig í leiknum.
Njarðvík: Dedrick Deon Basile 15/6 fráköst/6 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 14/4 fráköst, Lisandro Rasio 14/18 fráköst, Nicolas Richotti 13/4 fráköst/10 stoðsendingar/5 stolnir, Mario Matasovic 9, Maciek Stanislav Baginski 7, Ólafur Helgi Jónsson 5, Haukur Helgi Pálsson 3, Elías Bjarki Pálsson 0, Jan Baginski 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0.
Grindavík: David Tinarris Azore 25, Bragi Guðmundsson 19/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 18/5 fráköst/9 stolnir, Valdas Vasylius 12/11 fráköst, Hilmir Kristjánsson 5, Gkay Gaios Skordilis 4/4 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 2/4 fráköst, Arnór Tristan Helgason 0, Nökkvi Már Nökkvason 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Jón Eyjólfur Stefánsson 0, Magnús Engill Valgeirsson 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum og má sjá myndasafn neðst á síðunni.