Alexander: Stöngin út í allt sumar
Alexander Magnússon segir að ekkert annað en sigur komi til greina í kvöld þegar Grindvíkingar taka á móti Fram í Pepsi-deild karla í fótbolta. Alexander er á því að ef leikurinn tapist þá séu Grindvíkingar í virkilega slæmum málum og jafnvel svo gott sem fallnir úr deildinni. Fram er sex stigum á undan Grindvíkingum þessa stundina og róðurinn verður óneitanlega þungur ef ekki nást góð úrslit í kvöld. „Þetta er bara úrslitaleikur. Þeir verða ekkert mikið stærri þessir svokölluðu sex stiga leikir, það er ekkert annað en sigur í boði“ sagði Alexander í samtali við vf.is í dag. Hann segir að mórallinn í liðinu sé ekki endilega slæmur en óneitanlega sest það aðeins á sálina þegar fátt gengur upp. „Þetta hefur bara verið stöngin út í staðinn fyrir í stöngina og inn í allt sumar, það er aldrei gaman að tapa en ég finn svo sem ekki fyrir því á æfingum að mórallinn sé ekki góður,“ sagði miðjumaðurinn.
Alexander hefur verið að glíma við hnémeisli í sumar og þarf orðið reglulega að láta tappa vökva af hnénu svo hann geti beitt sér að fullum krafti. Hann telur líklegt að hann þurfi jafnvel að fara í aðgerð eftir sumarið en hann hittir sérfræðinga á næstunni.
Varðandi leikinn í kvöld þá telur Alexander að Grindvíkingar þurfi bara að halda áfram að spila sinn leik og þá ættu þeir að hafa Framara.
Leikur Grindvíkinga og Fram hefst klukkan 19:15 á Grindavíkurvelli í kvöld.