Albert bestur í Færeyjum
Albert Sævarsson, fyrrverandi markvörður Grindvíkinga, var kjörinn besti markvörðurinn í færeysku knattspyrnunni 2003 á lokahófi 1. deildarliðanna á laugardag. Albert varði mark B68 frá Tóftum í ár og fékk á sig fæst mörk allra í deildinni en lið hans varð í þriðja sæti og vann sér sæti í UEFA-bikarnum. Pól Thorsteinsson, landsliðsbakvörður úr B36, var valinn leikmaður ársins. Hann lék með Valsmönnum eitt tímabil, árið 2000. Vefur Grindavíkurbæjar greinir frá þessu.