Íþróttir

Ákvað að taka áhættu
Föstudagur 27. nóvember 2015 kl. 11:25

Ákvað að taka áhættu

Magnús Már um vistaskiptin og frábæra byrjun með Keflavík

Körfuboltakappinn Magnús Már Traustason tjáir sig um umdeild vistaskipti sín frá Njarðvík yfir í Keflavík. Hann nýtir tækifærið til fullnustu en þessi 19 ára leikmaður er með bestu skotnýtingu Domino’s deildarinnar og hefur unnið sér fastan sess í byrjunarliði toppliðsins.

Talsvert var gert úr vistaskiptum Magnúsar í sumar þegar hann ákvað að yfirgefa uppeldisfélagið í Njarðvík og ganga til liðs við erkifjendurna í Keflavík. Þegar horft er til spilatíma og til þess hvernig pilturinn er að standa sig, þá mætti færa rök fyrir því að hann hafi tekið góða ákvörðun. Hann er með bestu skotnýtingu allra leikmanna í deildinni, þegar kemur að skotum í teignum. Hefur sett niður 30 af 43 skotum sínum í vetur. Það gerir rétt tæplega 70% nýtingu, hvorki meira né minna. Magnús er að spila um 24 mínútur í leik. Hann skorar 10,6 stig að meðaltali og tekur 2,7 fráköst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vildi bara fá að spila

Varðandi góða byrjun Keflavíkur sem enn eru taplausir á toppi deildarinnar, segir Magnús að góður andi og rétt samsetning leikmanna sé að skila þessum árangri. Mikið sé af fjölhæfum leikmönnum í liðinu sem vega hvern annan upp. Hann gerði sér engar vonir um að komast í byrjunarlið Keflvíkinga og hvað þá um þetta gengi sem Keflavíkurliði státar af.

„Nei, ég var bara að vonast eftir að fá að spila 10-15 mínútur í leik. Ég kom ekki með neinar svakalegar væntingar eða loforð um ákveðið hlutverk í liðinu. Ég vildi bara fá aðeins að spila. Ég nýtti tækifærið á undirbúningstímabilinu með Keflavík þar sem ég fékk að spila mikið. Þá var kannski ljóst að ég myndi fá mínútur í vetur.“

Magnús Már hefur á sínum ferli spilað allar stöður á vellinum. Hann er hávaxinn, lipur og frár á fæti. Eins og skotnýtingin gefur til kynna er hann með frábært „touch“ í kringum körfuna. Hann segist hafa verið að vinna í því að þyngja sig svo hann eigi meira í sterku strákana í teignum. Það hefur tekist vel en samhliða vinnu í lyftingasalnum hefur múrvinnan hjá föður hans verið að skila sér í auknum styrk og vöðvamassa. Hann á erfitt með að benda á sína sterkustu stöðu á vellinum, í raun geti hann spilað sem skotbakvörður, framherji og kraftframherji. Þegar hann leikur með unglingaflokki, leikur hann gjarnan sem miðherji.

„Ég er frekar öðruvísi leikmaður. Ég get alveg póstað upp eða skotið boltanum. Ég get líka alveg keyrt á körfuna. Ég er nokkuð fjölhæfur en mætti vera enn fjölhæfari, t.d. með því að bæta boltameðferðina,“ segir Magnús.

„Þannig að ég ákvað að prófa að taka slaginn með Keflavík, taka smá áhættu. Ég þurfti bara aðeins að breyta til, það var málið.“

Talið berst að því þegar Magnús ákvað að ganga til liðs við Keflvíkinga. Sú ákvörðun var tvímælalaust stór og virkilega erfið. „Ég var orðinn áhugalítill undir lokin á tímabilinu í fyrra. Ég veit ekki alveg af hverju, en ég var að velta því jafnvel fyrir mér að hætta í körfubolta. Svo langaði mig að vera áfram í Njarðvík en sá ekki fram á fleiri mínútur, þar sem Njarðvík er með mjög góða leikmenn í mínum stöðum, t.d. Hjört, Ólaf Helga og Maciek. Þannig að ég ákvað að prófa að taka slaginn með Keflavík, taka smá áhættu. Ég þurfti bara aðeins að breyta til, það var málið.“

Var þetta erfið ákvörðun?
„Já þetta var virkilega erfið ákvörðun en ég sé ekki eftir henni núna. Fjölskyldan stóð við bakið á mér og það er eina sem skiptir máli.“

Nokkuð heitar umræður áttu sér stað á samfélagsmiðlunum eftir að Magnús var genginn til liðs við Keflvíkinga. „Ég sá þetta allt saman sem var verið að skrifa. Það var svolítið erfitt. Ég hélt bara áfram að spila körfubolta og reyna að hafa gaman af honum. Ég var ekki að svara neinu af þessu. Hélt bara áfram mínu striki.“

„Það kom bara í ljós hverjir voru vinir mínir þegar ég fór yfir. Þannig að ég er búinn að ræða við mína félaga í Njarðvík síðan ég fór yfir og þeir styðja mig.“ Þó segir Magnús að einhverjir í kringum félagið tali ekki við hann eftir skiptin.

Myndir þú spila aftur fyrir Njarðvík? „Maður á aldrei að segja aldrei en mér líður mjög vel í Keflavík. Maður veit ekki, ég er bara að verða 19 ára þannig að þetta er rétt að byrja.“

„Það eina sem ég ætlaði að gera var að hafa gaman af körfubolta. Svona fyrst maður er í þessu alla daga. Það hefur heldur betur skilað sér. Þetta er virkilega gaman og ég hlakka til að mæta á allar æfingar,“ segir Magnús að lokum.