Áhugamál varð að atvinnu
„Þakka honum fyrir mína vinnu í dag“
Alexander Aron Hannesson byrjaði að spila FIFA að ósk vinar síns, mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Í dag situr Alexander í mótsstjórn úrvalsdeildar Rafíþróttasambands Íslands, er yfirþjálfari Rafíþróttadeildar Keflavíkur og liðsstjóri landsliðsins í e-fótbolta.
Á vini sínum mikið að þakka
Sagan af upphafi FIFA ævintýris Alexanders er heldur skondin en áhugi vinar hans á leiknum varð til þess að hann neyddist til að spila hann.
„Vinir mínir voru alltaf að koma í heimsókn og kvarta yfir því að ég væri ekki með neina almennilega tölvu til að spila leiki í svo ég ákvað að kaupa mér Playstation-tölvu. Einn daginn kom góður vinur minn í heimsókn, kastar til mín FIFA-leik og sagðist alveg vera búinn að fá nóg af því að koma í heimsókn og ekki geta spilað FIFA með mér,“ segir hann og bætir við: „Það er eiginlega hægt að þakka honum fyrir mína vinnu í dag.“
Að vera liðstjóri tekur minna á taugarnar
Alexander komst inn í úrvalsdeild FIFA á Íslandi eftir góða frammistöðu á sínu fyrsta móti. Hann áttaði sig fljótt á því að áhugasvið hans lægi frekar í skipulagi og vinnunni á bak við tjöldin en að vera keppandi. Alexander ákvað því að gefa færi á sér sem liðsstjóri landsliðsins. „Mér bauðst svo það tækifæri núna á síðasta ári og ég hoppaði í raun bara strax á það,“ segir hann. Þá nefnir hann að það sé gaman að fá að vera partur af heildinni án þess að vera keppandi því það taki minna á taugarnar. „Stressið við að keppa leikina er ekkert grín,“ segir hann og hlær.
Bjartsýnn um framhaldið
Landsliðið er sem stendur að taka þátt í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í e-fótbolta. Mót þetta byrjaði í desember og mun standa yfir allt fram í apríl. Alexander segir fyrstu umferð mótsins ekki hafa byrjað vel fyrir liðið en er bjartsýnn um framhaldið. Hann bætir þá við að íslenska liðið sé nýtt í íþróttinni og hafi því ekki sömu reynslu og önnur landslið. „Ég hef bullandi trú á því að við munum ná að bíta frá okkur,“ segir Alexander með jákvæðnina í fararbroddi.
Félagslíf og íþróttir í sama pakka
Alexander hefur spilað tölvuleiki nánast alla sína ævi og segist hafa byrjað að spila FIFA seint miðað við aðra. Hann nýtur þess að þjálfa rafíþróttir og segir þær vera góðan vettvang fyrir ungmenni til þess að upplifa félagslíf og keppnisumhverfi í góðra vina hóp.
„Rafíþróttadeild Keflavíkur leggur áherslu á að ungmenni upplifi félagslíf og íþróttir í sama pakka,“ segir hann. Þá bætir hann við að slíkt umhverfi geti ýtt undir keppnisskap og skemmtun.