Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Áhersla á þroska einstaklingsins
Föstudagur 6. desember 2013 kl. 10:06

Áhersla á þroska einstaklingsins

Seinni hluti.


Í síðasta blaði ritaði ég grein um þjálfun barna upp að tíu ára aldri. Þar kom m.a. fram að áherslan ætti að vera á þroska einstaklingsins og fjölbreytta hreyfingu en ekki að gera meistara úr börnum. Æfingar eiga að vera krefjandi en þjálfun barna og meistaraflokks er sinn hvor hluturinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í þessum síðari hluta greinarinnar kem ég inn á félagslegan hluta íþróttarinnar, aga og mikilvægi gagnkvæmra samskipta foreldra og þjálfara. Náin líkamleg samskipti, sem er stór hluti júdós, geta verið mikilvæg í þróun félagsfærni og gert líkamlega umgengni við önnur börn auðveldari. Þetta er gott til að kenna börnum að hverskonar líkamleg snerting er viðeigandi í daglegum samskiptum. Börn læra fljótt að júdó er líkamlega erfitt og að vinna með félaga er betra en að vinna á móti honum. Félagslega gefur júdóiðkun börnum tækifæri á því að umgangast börn úr öllu bæjarfélaginu og e.t.v. öllu landinu. Félög eru oftast með æfingar hverja á eftir annarri, þannig umgangast yngri börn þau eldri sem getur leitt til vináttu og uppgötvunar nýrra fyrirmynda. Félagið sér einnig til þess að félagslegir viðburðir og önnur færni ótengd júdó séu viðhafðir í félaginu. Mikilvægur hluti af júdó, er sjálfsstjórn.


Barnaþjálfun ekki það sama og meistaraflokksþjálfun


Við höfum haft í heiðri japanska siði og venjur eins og að hneigja sig fyrir hvoru öðru o.fl. Þessir siðir og venjur eru verkfæri sem að júdóþjálfari notar til að þroska barnið þitt og hjálpa því að þróa með sér félagslega hegðun sem hefur jákvæð áhrif á barnið og aðra sem það umgengst. Kennarar í skólanum munu mjög líklega taka eftir hegðunarbreytingum eftir að barnið byrjar að æfa júdó. Orðin „öruggt“, „skemmtilegt“ og „þroski“ eru lykillinn. Barnið ætti að vera öruggt og finnast það vera öruggt. Æfingarnar ættu að vera öruggar og barnið ætti ekki að meiðast í júdó. Það mun að öllum líkindum fá skrámur og marbletti, og því miður henda slysin stundum. En barn ætti aldrei að verða fyrir ofþjálfun í júdó. Barnajúdó er ekki það sama og meistaraflokksþjálfun, þó að erfiðleikastigið þurfi stundum að vera hátt og mun reyna á barnið. Æfingarnar eiga ekki að vera erfiðar í hverri viku. Við hjá Júdódeild Njarðvíkur viljum kynna börnunum fyrir erfiðri líkamlegri þjálfun og styrkja þau, en það er einungis hluti af áætlun til að kynna íþróttagreinina fyrir barninu þínu.


Góð samskipti við foreldra mikilvæg


Júdóþjálfarar reyna eftir bestu getu að eiga góð samskipti við foreldra þeirra barna sem þeir eru að þjálfa. Það getur verið vegna júdótækni, útbúnaðar eða vegna þess að barnið á erfitt með að hemja reiði á vissu þroskastigi, o.s.frv. Foreldrar ættu líka að vera í gagnkvæmum samskiptum við þjálfarann um hverskyns þroska og sigra og/eða vandamál heima fyrir. Gott júdófélag og góður júdóþjálfari taka alltaf við innleggi/ábendingum frá foreldrum og vinna með þeim þannig að barnið þroskist sem best og njóti alls þess sem júdóiðkun hefur upp á að bjóða. Þér og barninu þínu ættu að finnast júdófélagið vera öruggt og skemmtilegur staður þar sem barninu þínu er gefið tækifæri á því að þroskast bæði líkamlega og andlega.


Guðmundur Stefán Gunnarsson, aðalþjálfari Júdódeildar Njarðvíkur.