Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Áheitasund til styrktar veikum sjómanni
Fimmtudagur 22. september 2011 kl. 11:22

Áheitasund til styrktar veikum sjómanni

- Sundfólk í Grindavík ætlar að synda meira en 100 km

Félagar í sunddeild UMFG í Grindavík ætla að þreyta maraþonsund um næstu helgi í fjáröflunarskyni. Stefnt er að því að synda meira en 100 kílómetra til stuðnings fertugum sjómanni í Grindavík sem glímir við góðkynja æxli við talstöðvar heilans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það hafa 60-70 sundmenn skráð sig til þátttöku. Við verðum líka með gestabraut og hvetjum Grindvíkinga og aðra til að mæta og taka þátt,“ sagði Guðbjörg Arnardóttir, formaður sunddeildarinnar við Morgunblaðið í dag. Hún sagði að góð stemmning sé fyrir átakinu og flestir í sunddeildinni ætli að vera með. Sundfólkið sem þegar hefur skráð sig er á aldrinum fimm ára til fertugs.

„Krakkarnir fengu feiknagóðar viðtökur þegar þeir gengu í hús um síðustu helgi og söfnuðu áheitum. Þeir dreifðu líka miðum með númeri söfnunarreikningsins. Fólk er ánægt með hvað við leggjum af mörkum til að styðja þennan mann. Sumir sögðust ætla að koma og synda með okkur,“ sagði Guðbjörg. Hún sagði ekki stefnt að því að safna tiltekinni upphæð en að synda að minnsta kosti 100 kílómetra.

Sundið hefst klukkan 17.00 á morgun, föstudag, í sundlauginni í Grindavík. Unglingarnir ætla að gista í kjallara sundlaugarinnar og synda á vöktum. Foreldrar verða til staðar allan sólarhringinn, bæði til gæslu, til að vekja krakkana í sundið og skrá vegalengdir sem þátttakendur synda. Krakkarnir verða með nesti að heiman og ætlunin er að grilla sameiginlega á laugardeginum.

Magnús Már Jakobsson, sundþjálfari UMFG, sagði að yngstu sundmennirnir syntu samtals í tvo tíma á laugardag og tvo tíma á sunnudag. Eldra sundfólkið syndir á 5-6 klukkustunda fresti allan sólarhringinn.

Mikil stemning fyrir maraþonsundinu

„Þetta leggst mjög vel í krakkana,“ sagði Erla Sif Arnardóttir, fyrirliði sundliðs UMFG í Morgunblaðinu í dag. „Ég held að allir í sundliðinu ætli að taka þátt, yngri krakkarnir líka.“

Erla Sif var í hópi þeirra sem gengu í hús í Grindavík um síðustu helgi og söfnuðu áheitum vegna sundsins. „Mér fannst við fá rosalega góðar viðtökur, það var vel tekið undir þetta og flestir lofuðu vissri upphæð. Þetta voru frjáls framlög,“ sagði Erla Sif. Hún hefur áður tekið þátt í áheitasundi líku því sem fram fer um helgina.

„Þetta er bæði erfitt og rosalega skemmtilegt,“ sagði Erla Sif. Hún syndir líklega sjö sinnum og klukkutíma í hverri lotu.

„Ég syndi tvær ferðir og svo syndir stelpan sem er með mér á braut tvær ferðir. Við skiptumst alltaf á. Ég ætla að synda mest skriðsund, það er þægilegast og maður fer hraðast yfir á því. Annars æfi ég meira bringusund en í svona löngum sundum finnst mér skriðsund betra. Síðast syntum við 116,7 kílómetra og það er stefnt að því að bæta það.“ Brautin er 25 metra löng og þarf því að synda meira en 4.668 ferðir til að bæta metið.

Guðbjörg sagði að sundfólk í Grindavík hafi gert svipað átak fyrir tæpum fjórum árum þegar safnað var fyrir fjölskyldu sex ára drengs sem var með æxli í heilastofni. Þá syntu þau tæpa 117 kílómetra og söfnuðu um tveimur milljónum króna.

Þeir sem vilja styrkja átakið til styrktar sjómanninum í Grindavík geta lagt inn á söfnunarreikning 0143-15-380555, kennitala 220971-3179.



Myndir: Að ofan má sjá hópinn sem ætlar að synda til styrktar Garðari sem er að neðri myndinni.