Ágúst Kristinn og Eyþór tóku þátt í sterkum Taekwondo-mótum

Ágúst Kristinn Eðvarðsson og Eyþór Jónsson iðkendur frá Taekwondo-deild Keflavíkur tóku þátt í stórmótum í Túnis sem fram fóru þann 6.–12. apríl sl. Ágúst Kristinn keppti á úrtökumóti fyrir Ólympíuleika æskunnar, ásamt því að taka þátt í heimsmeistarmóti unglinga og Eyþór keppti einnig á því móti.

Úrtökumót fyrir Ólympíuleika æskunnar er fyrir íþróttamenn sem eru sextán og sautján ára á þessu ári og fara leikarnir fram á fjögurra ára fresti, líkt og Ólympíuleikarnir. Á heimsmeistaramóti unglinga eru keppendur 15–17 ára og er þetta með stærstu mótum í Taekwondo í heiminum og alls keppa 950 landsliðskeppendur frá 120 löndum þar.

Ágúst Kristinn keppti í -48 kg flokki en þar tóku 42 keppendur þátt. Ágúst sigraði fyrsta andstæðing sinn frá Argentínu örugglega 27-8. Næsti bardagi Ágústs var við sterkan keppanda frá Suður-Kóreu og sá bardagi endaði með tapi 30-13, Ágúst endaði í þrettánda sæti sem dugði ekki til þátttöku í Ólympíumótinu en tíu efstu í hverjum flokki komast inn á leikana.

Tveimur dögum eftir úrtökumótið á Ólympíuleikana tók Ágúst þátt í heimsmeistaramótinu en fyrsti mótherji hans þar var frá Mongolíu og var bardaginn jafn frá byrjun og keppendur skiptust á að ná forystunni. Ágúst tapaði þeim bardaga gegn áköfum andstæðingi 20-29.

Eyþór keppti í -68 kg flokki og var fyrsti andstæðingur hans frá Indlandi en Eyþór vann þann bardaga örugglega 35-15. Næst mætti hann keppanda frá Papúa Nýju Gíneu og tapaði Eyþór þeim bardaga naumlega 17-14 eftir góða baráttu.

„Allir keppendur koma heim reynslunni ríkari og geta enn betur undirbúið sig fyrir komandi keppnir,“ segir Helgi Rafn Guðmundsson, þjálfari þeirra. 

Lið Íslands:
Eyþór Jónsson - 68
Leo Speight -73
Ágúst Kristinn Eðvarðsson -48
Chago Rodriguez Segur - þjálfari
Helgi Rafn Guðmundsson - þjálfari
Sveinn Speight - foreldri og ljósmyndari

Myndir - Sveinn Speight