Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Agnar tekur við kvennaliði Njarðvíkur
Jasmine Beverley náði sér ekki á strik með Njarðvíkingum.
Sunnudagur 29. desember 2013 kl. 14:57

Agnar tekur við kvennaliði Njarðvíkur

Einnig nýr erlendur leikmaður

Agnar Mar Gunnarsson hefur tekið við þjálfun Njarðvíkurkvenna en hann tekur við liðinu af Nigel Moore sem stýrði liðinu á fyrri hluta tímabilsins. Agnar var Nigel innan handar í haust en tekur nú við liðinu og þá er Nikitta Gartrell nýr leikmaður kvennaliðsins en hún kemur í stað Jasmine Beverley, sem var sagt upp störfum um miðjan desember. Frá þessu er greint á heimasíðu UMFN.

Gartrell er fjölhæfur bakvörður sem getur í raun leyst flestar stöður á vellinum. Hún er 175 cm á hæð og 25 ára gömul. Hún lék með North Carolina State í háskólaboltanum en skólinn er í hinum geysisterka ACC riðli, en þar lék einmitt Lele Hardy með Clemson háskólanum á sínum tíma. Gartrell var valin í úrvalslið ACC riðilsins á lokaárinu sínu (2010). Á tímabilinu 2011-2012 lék hún í Grikklandi í efstu deild og var þar með 15,3 stig, tók 8,2 fráköst, gaf 2,6 stoðsendingar og stal 2,4 boltum. Hún lék svo í WUBA deildinni í USA síðasta vetur og var þar stigahæst í deildinni með 25,7 stig á leik. Þá má geta þess að hún var í yngri landsliðum Bandaríkjanna. Gartrell verður klár í slaginn þegar UMFN mætir Hamar í Ljónagryfjunni 5. janúar nk.

Stelpurnar hefja leik á nýju ári á heimavelli en þær leika eins og áður segir gegn Hamar í fyrsta leik og svo koma Haukar í heimsókn þann 8. janúar. Staðan er vissulega snúin hjá stelpunum en með góðum stuðningi er hægt að gera góða hluti og vonandi fjölmenna Njarðvíkingar á leiki stelpnanna á nýju ári og styðja þær í baráttunni sem framundan er.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024