Agnar Olsen Íslandsmeistari í 8-Ball
Fyrir mörgum árum, þegar rekin var knattborðsstofa í Grófinni í Keflavík og víðar, voru margir snjallir spilarar á Suðurnesjum – en þó að stofa hafi ekki verið rekin hér í háa herrans tíð leynast enn góðir leikmenn á Suðurnesjum. Um miðjan apríl varð Vogamaðurinn Jón Ingi Ægisson Íslandsmeistari í snóker 40 ára og eldri og um þarsíðustu helgi landaði Njarðvíkingurinn Agnar Olsen Íslandsmeistaratitli í 8-Ball.
Agnar er enginn aukvisi í poolinu en hann varð einnig Íslandsmeistari í 9-Ball árið 2018 og árið 2019 vann hann tvöfalt, varð Íslandsmeistari í 8-Ball og 9-Ball. Agnar tók ekki þátt í mótum árið 2020 vegna veikinda. Agnar stundar pool á fullu og er virkur í starfsemi íþróttarinnar en hann situr í stjórn Billiardsambands Íslands. Víkurfréttir óskuðu Agnari til hamingju með titilinn og spjölluðum við hann um pool og fleira.
„Þetta var ansi skemmtilegt mót, útsláttarmót. Oft hefur verið spilað í riðlum en núna var bara beinn útsláttur. Ef maður tapaði þá fór maður bara heim. Í fyrstu umferð fór sá sem var fyrstur til að vinna sjö ramma áfram, þannig að allir fengu þó eitthvað út úr mótinu.
Þátttakan í mótinu var ágæt, tuttugu manns, en þetta var fyrsta Íslandsmótið af þremur í pool. Núna var keppt í 8-Ball en það eru í raun þrjú Íslandsmót eftir hjá Billiardsambandinu; Íslandsmótið í 9-Ball og Íslandsmótið 10-Ball, en þau verða núna seinnipartinn í maí, og svo er Íslandsmótið í snóker í gangi núna. Það er það mót sem er alltaf litið á sem stóra mótið.“
– Keppir þú í bæði pool og snóker?
„Já, ég geri það núna, aðallega til að fá meiri keppnisreynslu – en ég hef lagt meiri áherslu á poolið. Á næsta ári ætla ég að vera í báðum greinum, það er svo gaman að þessu og þótt maður sé ekki að verða neinn heimsmeistari úr því sem komið er þá er bara svo gaman að vera með. Þetta er meira upp á gamanið.“
Saknaði keppninnar
– Agnar er fæddur og uppalinn Njarðvíkingur og lék með Njarðvíkingum í úrvalsdeildinni í körfu á árunum 1988 til 1993 – en hvar kynntist hann poolinu?
„Ég var aðeins í þessu í gamla daga, þegar það var stofa hérna í Grófinni, en svo byrjaði ég á þessu þegar ég flutti hingað aftur fyrir um tólf árum. Ég er endurskoðandi og bjó á Eskifirði í nokkur ár þar sem ég vann og lék mér aðeins í körfubolta með Hetti. Síðan bjó ég í Kópavogi til ársins 2008 þegar ég flutti aftur hingað. Þá setti ég upp pool-borð heima hjá mér og fór svo af krafti í þetta fyrir svona þremur árum, byrjaði að taka þátt í mótum seinni partinn 2017. Ég hef alltaf haft rosalega gaman að þessu. Það er svo gaman að keppa, ég er keppnismaður í eðli mínu og hafði hætt í körfunni mörgum árum áður – ég bara saknaði þess að keppa. Það er öðruvísi andrúmsloft og spennustig þegar maður er í móti, það er bara „do or die“.
Það er svo fyndið þegar maður fer af stað með það fyrir augum „að bara vera með“ en það endist bara í svona fimm mínútur, svo kviknar á keppnisskapinu í manni. Þetta er eins og þegar maður fer í körfubolta með gömlu félögunum, á bara að vera létt og skemmtilegt en um leið og menn eru búnir að reima á sig skóna byrjar metingurinn og harkan. Þess vegna er svo mikið um meiðsli í þessum eldri bolta, hugurinn er langt á undan líkamanum,“ segir Agnar.
Vantar meiri nýliðun
Agnar segir að Billiardsambandið hafi verið að vinna í að gera greinarnar aðgengilegri fyrir fólk til að fylgjast með. Nú er farið að streyma beint frá keppni og BSÍ hefur tekið í notkun tölvukerfi þar sem úrslit leikja eru birt jafnóðum. „Nú er mjög auðvelt að fylgjast með mótum á netinu, sjá hvernig leikir ganga. Við höfum verið að gera þetta áhorfendavænna en svo höfum við sett okkur annað markmið. Það þarf að verða meiri nýliðun í sportinu, við þurfum að ná til krakkanna og við höfum verið að horfa á að ganga í Íþróttasamband Íslands en Billiard-sambandið hefur ekki verið innan þess.“
Vinsældir að aukast
Það er nokkuð ljóst að vinsældir snóker og pool eru á uppleið í íslensku íþróttalífi. Núna er Íslandsmótið í snóker í gangi en það hófst um síðustu helgi og því lýkur um næstu helgi. Agnar segir að vegna Covid hafi Íslandsmótið verið opið í ár. „Vanalega eru það sextán efstu á stigalista Billiardsambandsins sem hafa þátttökurétt í meistaraflokki á Íslandsmótinu og svo er keppt í fyrsta flokki. Í ár höfum við ekki getað haldið nema tvö stigamót, þess vegna var sú leið farin að sleppa fyrsta flokknum og hafa opið mót í staðinn. Þeir átta efstu frá síðasta ári komast beint inn í sextán manna úrslit en það voru 34 sem kepptu um síðustu helgi um hin átta sætin.“
Sextán og átta manna úrslit voru leikin á sunnudaginn og mótinu verður áfram haldið um næstu helgi. Þess má geta að Agnar féll úr leik í sextán manna úrslitum en Suðurnesjamaðurinn Jón Ingi Ægisson, Íslandsmeistari í snóker 40 ára og eldri, kom beint inn í átta manna úrslitin þar sem hann vann Ásgeir Guðbjartsson 5:4. Undanúrslit Íslandsmótsins verða leikin á laugardag og úrslitaleikurinn fer fram á sunnudag.