Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Agnar biðst afsökunar eftir leiðindaatvik
Miðvikudagur 11. apríl 2007 kl. 17:50

Agnar biðst afsökunar eftir leiðindaatvik

Í kjölfar þriðja úrslitaleiks Hauka og Keflavíkur á þriðjudagskvöld í Iceland Express deild kvenna átti sér stað leiðindaatvik undir leikslok. Agnar Mar Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkurliðsins, gekk í veg fyrir Helenu Sverrisdóttur, leikmann Hauka og stjakaði við henni af tilefnislausu. Atvikið átti sér stað nokkrum sekúndum eftir að lokaflauta leiksins gall.

 

Agnar hefur að eigin frumkvæði haft samband við forsvarsmenn Körfuknattleiksdeildar Hauka og viðkomandi leikmann og beðist afsökunar á hegðun sinni. Á vefsíðu Hauka segir að með afsökunarbeiðninni sé málinu lokið frá hendi Hauka og viðkomandi leikmanns.

 

Agnar tjáði Víkurfréttum það í dag að hann hefði nú seinni partinn náð sambandi við Helenu og beðið hana velvirðingar á atvikinu. ,,Við vorum sammála um að þetta mál væri afgreitt líka okkar á milli og ég fæ að smella einum kossi á kinn hjá henni á laugardag,” sagði Agnar.

 

Úrslitakeppnin í kvennakörfunni í ár hefur verið hreint augnakonfekt en þetta atvik á þriðjudagskvöld setti miður góðan blett á þennan þriðja leik en allir hlutaðeigandi aðilar líta svo á að nú sé þetta mál frá og að bæði lið geti nú af fullum krafti einbeitt sér að fjórða leik liðanna sem fram fer á laugardag.

 

VF-mynd/ Hans Guðmundsson - Þjálfarar Keflavíkurkvenna, Agnar t.v. og Jón Halldór t.h.

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024