Aftur tap á heimavelli
Valsstúlkur leiða 2-1
Valur gerði sér lítið fyrir og vann annan leik í Toyotahöllinni í Keflavík í undanúrslitum Domino's deildar kvenna í körfubolta. Lokastaðan var 68-75 í leik þar sem gestirnir höfðu yfirhöndina allt frá upphafi.
Fjölmennt var í stúkunni og fínasta stemning en það dugði heimaliðinu ekki að þessu sinni.
Valsstúlkur byrjuðu með látum og náði fljótlega ágætis forystu. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 9-18 fyrir Valsstúlkur og það reyndist Keflvíkingum erfitt að finna taktinn í sókninni.
Reynsluboltar Keflavíkur létu það ekki á sig fá og þær Pálína Gunnlaugsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Birna Valgarðsdóttir leiddu Keflvíkinga áfram í sóknarleiknum. Það dygðu þó skammt gegn Valstúlkum sem voru að hitta vel. Staðan var 30-36 fyrir gestina í hálfleik.
Valsstúlkur héldu sínu striki í síðari hálfleik og að loknum þriðja leikhluta leiddu þær enn, 46-58 þrátt fyrir áhlaup Keflvíkinga. Keflvíkingar virtust ekki eiga svör á reiðum höndum og því þurftu þær að sætta sig við tap. Staðan í einvíginu er því 2-1 fyrir Val en næsti leikur fer fram á þeirra heimavelli á fimmtudag.
Tölfræðin:
Keflavík: Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 17/6 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 15/4 fráköst/5 stolnir, Jessica Ann Jenkins 10/5 fráköst/5 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 10/5 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 8/8 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 8/7 fráköst, Lovísa Falsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Sandra Lind Þrastardóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Elínora Guðlaug Einarsdóttir 0, Ingibjörg Jakobsdóttir 0.
Valur: Kristrún Sigurjónsdóttir 24/9 fráköst, Jaleesa Butler 15/15 fráköst/8 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 11, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 10/4 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 7/4 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 6/6 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 2, Sóllilja Bjarnadóttir 0, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0, Kristín Óladóttir 0, Elsa Rún Karlsdóttir 0, María Björnsdóttir 0.