Afreks- og landsliðssamningar gerðir við kylfinga GS
Golfklúbbur Suðurnesja (GS) heldur úti öflugu afreksstarfi og gerir ár hvert samninga við þá afrekskylfinga klúbbsins sem þykja skara fram úr og stunda markvissar æfingar hjá klúbbnum.
Nýlega voru gerðir svokallaðir A samningar og landsliðssamningar við nokkra kylfinga GS. Við kylfingana Svein Andra Sigurpálsson, Guðmund Rúnar Hallgrímsson, Pétur Þór Jaidee og Björgvin Sigmundsson voru gerðir A samningar og þá voru undirritaðir landsliðssamningar við þau Fjólu Margréti og Loga Sigurðsson en landsliðssamningarnir eru nýjung hjá klúbbnum og fela í sér örlítið meiri stuðning við þá kylfinga sem taka þátt í landsliðsverkefnum og fá þeir meðal annars aðgang að Sporthúsinu sér að kostnaðarlausu. Golfklúbburinn og Sporthúsið hafa hafið samstarf sem á vonandi eftir að eflast og dafna þegar fram líða stundir.
Í tilkynningu frá GS segir að stjórn og afreksnefnd óski afrekskylfingum GS góðs gengis í sumar og voni að þessir samningar hjálpi kylfingunum að ná settum markmiðum.