ÁFRAM KEFLAVÍK!!!
Keflavík mætir Ovarense frá Portúgal í Evrópukeppni bikarhafa í kvöld og hefst leikurinn klukkan 19.15. Mikið verður um dýrðir vegna þess að aðstandendur liðsins hafa unnið að því hörðum höndum að gera umgjörð leiksins eins veglega og möguleiki er á. Meðal annars verður ljósashow með öllu tilheyrandi auk þess sem söngfuglin Hera mun skemmta áhorfendum með söng í hálfleik.
Lið Ovarense hefur verið með þeim sterkari í sínu heimalandi undanfarin ár og hefur verið reglulegur þátttakandi í hinum ýmsu Evrópukeppnum, án mikils árangurs þó. Liðið er skipað hávöxnum, sterkum strákum sem verður eflaust erfitt að eiga við undir körfunni, en Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, hyggst nota styrk sinna manna, þ.e. langskot og hraða, til að sjá við Portúgölunum. Þess vegna munu þrír góðir skotmenn hefja leikinn fyrir þá, en það eru þeir Falur, Magnús Þór og Gunnar Einars, en Nick Bradford og Derrick Allen munu sjá um að halda aftur af stóru mönnum Ovarense. Aðrir leikmenn Keflavíkur í kvöld verða Sverrir Þór, Hjörtur, Jón Nordal, Arnar Freyr og Halldór.
Guðjón viðurkennir að hann viti ekki mjög mikið um andstæðingana en sé þó búinn að sjá út af tölfræði sem er að finna á netinu, hverjir eru skeinuhættastir í liði Ovarense, annað verða Keflvíkingar að finna út í leiknum sjálfum og bregðast við með viðeigandi hætti.
Guðjón leggur mikla áherslu á að sem flestir áhorfendur mæti til að styðja sína menn. „Þetta er skemmtileg tilbreyting fyrir áhugafólk að fá að sjá nýtt lið í stað þess að sjá alltaf sömu liðin ár eftir ár.“ Víkurfréttir taka undir þau orð Guðjóns og hvetja alla áhugamenn til að koma og hvetja Keflvíkinga, jafnt heimamenn sem og nærsveitarmenn. Á tímum þegar íslenska landsliðið hefur allt að því verið lagt niður er Keflavíkurliðið eini fulltrúi íslensks körfubolta á alþjóðavettvangi og fók hlýtur að geta lagt hversdagslegan hrepparíg að baki sér eina kvöldstund og stutt við bakið á „okkar mönnum“.
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur leggur áherslu á að fólk mæti tímanlega til þess að missa ekki af ljósashowinu sem hefst um 19.05.
ÁFRAM KEFLAVÍK!!!