Ættu að skammast sín
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var allt annað en sáttur við sína menn eftir 2-1 ósigur gegn Breiðblik á Kópavogsvelli í gær. Fyrir leikinn var vitað að Keflvíkingar yrðu fastir í fjórða sæti deildarinnar en þjálfarinnar sagði að það væru margir sinna leikmanna sem ættu að skammast sín fyrir leik sinn í gær. Mörk Blika gerðu þeir Magnús Páll Gunnarsson og Arnar Grétarsson. Keflavík minnkaði muninn í 2-1 þegar Petr Podzemsky gerði sjálfsmark á 86. mínútu.
„Það var meira undir hjá Breiðablik í leiknum en okkur en það getur verið erfitt að peppa menn upp í svona leiki þegar staða manns er örugg fyrifram,“ sagði Kristján í samtali við Víkurfréttir. Kristján viðurkenndi að bikarúrslitaleikurinn gegn KR gæti hafa verið að trufla sína menn en sagði það enga afsökun.
Guðmundur Steinarsson var ekki í leikmannahópi Keflavíkur í gær þar sem hann var kominn með þrjú gul spjöld fyrir leikinn. Spjald til viðbótar hefði sett hann í bann gegn KR í bikarúrslitunum. „Við vissum að með sigri þá hefði taflan litið betur út hjá okkur og við getað fært okkur aðeins fjær þeim liðum sem voru nærri botninum en það tókst ekki,“ sagði Kristján.
Fyrsta mark Blika kom á 17. mínútu þegar Magnús Páll Gunnarsson skoraði með skalla. Síðara mark Blika gerði Arnar Grétarsson úr vítaspyrnu eftir að Branislav Milicevic hafði gerst brotlegur í teignum.
Keflvíkingar minnkuðu muninn í 2-1 eftir að hafa átt skalla í slá en það var svo Petr Podzemsky sem skallaði knöttinn í sitt eigið mark þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og þar við sat.
Keflavík lauk því keppni í Landsbankadeild í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig og náðu þar með Evrópusæti. Næsti leikur liðsins er gegn KR þegar liðin mætast í úrslitaleik VISA bikarkeppninnar.
VF-myndir/ Hans Guðmundsson