Ætlum okkur eins langt og við getum
Keflvíkingar sigruðu FC Etzella frá Lúxemborg, 0-4, í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu s.l. fimmtudag. Hörður Sveinsson gerði öll fjögur mörk Keflavíkur í leiknum og var sjóðheitur ytra. Nú hefur hann gert fimm mörk í tveimur leikjum en Keflvíkingar gerðu 2-2 jafntefli við ÍBV í Landsbankadeildinni á mánudaginn var þar sem Hörður skoraði úr vítaspyrnu. Víkurfréttir tóku púlsinn á Herði sem er eini íslenski leikmaðurinn sem hefur skorað fjögur mörk í einum og sama Evrópuleiknum. Þeir sem hafa skorað fleiri mörk en Hörður í heildina eru Hermann Gunnarsson (5), Ríkharður
Daðason (5) og Mihajlo Bibercic (6).
Verður nokkuð lát á markahrynunni í næstu leikjum?
„Það ætla ég að vona ekki, vonandi heldur þetta áfram í næstu leikjum.“
Hvernig líst þér á framhaldið í deildinni og Evrópukeppninni?
„Mér líst vel á framhaldið, við erum að fá inn sterka leikmenn og ég hef fulla trú á því að liðið muni standa sig betur í næstu leikjum en við höfum gert undanfarið. Við ætlum okkur bara eins langt og við getum í Evrópukeppninni og stefnum ótrauðir á þriðja sætið í Landsbankadeildinni.“
Hver eru þín skilaboð til ungra knattspyrnuiðkenda?
„Æfa eins og vitleysingar og vona það besta!“
Seinni leikur Keflavíkur og Etzella fer fram á Laugardalsvelli fimmtudaginn 28. júlí en þeir halda fyrst í vesturbæinn á sunnudag og leika þar gegn KR í Landsbankadeildinni.
Myndin er af vef Keflavíkur.