„Ætlum okkur að vera á toppi Inkasso-deildarinnar“
„Stuðningur skiptir að sjálfsögðu miklu máli, bæði innan sem utan vallar,“ segir Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur.
Kvennalið Keflavíkur í knattspyrnu leikur í Inkasso-deild kvenna í sumar en á síðasta ári endaði liðið í fjórða sæti fyrstu deildarinnar. Liðið mætir ÍR í fyrsta leik sumarsins þann 10. maí en við fengum Gunnar Magnús, þjálfara liðsins til að svara nokkrum spurningum fyrir okkur um sumarið, hópinn og markmið sumarsins.
Hvernig er staðan á hópnum?
Staðan er góð nú þegar stutt er í mót. Minniháttar meiðsl eins og gengur og gerist. Annars er mikil tilhlökkun innan leikmannahópsins að byrja tímabilið.
Hvert er markmið sumarsins?
Við erum með nokkur frammistöðumarkmið innan liðsins, en förum ekkert leynt með niðurstöðumarkmið sumarsins sem er að vera á toppi Inkasso-deildarinnar í lok tímabilsins.
Ætlið þið að fá fleiri leikmenn til ykkar áður en leikmannaglugginn lokar?
Nei, erum með stóran, samheldinn og góðan hóp sem við treystum til góðra verka.
Er einhver leikmaður sem þú vilt nefna sem hefur sýnt framfarir í vetur eða bindur miklar vonir við?
Það er enginn einn leikmaður sem hefur sýnt framfarir umfram aðra. Stelpurnar hafa allar tekið skref upp á við, bæði í getu og í þroska.
Hver er leiðtoginn í hópnum og heldur leikmönnum saman?
Við erum með nokkra öfluga leiðtoga í hópnum. Natasha, sem er fyrirliði liðsins, er frábær leiðtogi sem stelpurnar í liðinu bera mikla virðingu fyrir og hafa lært mikið af.
Skiptir stuðningurinn máli?
Stuðningur skiptir að sjálfsögðu miklu máli, bæði innan sem utan vallar. Við erum með ótrúlega öflugt kvennaráð og knattspyrnuráð sem hefur mikinn metnað fyrir kvennaboltanum í Keflavík. Í lok síðasta tímabils fékk liðið mjög öflugan stuðning frá Peppsquadkefbois sem gaf stelpunum auka kraft. Drengirnir mæta vonandi öflugir á leikina hjá stelpunum í sumar ásamt öðrum sönnum Keflvíkingum.
Hver er ykkar styrkleiki/veikleiki?
Styrkleiki liðsins er klárlega liðsheildin sem er með því betri sem ég hef kynnst á löngum þjálfaraferli. Frábær hópur þar sem allir liðsmenn eru jafn mikilvægir og gegna ákveðnum hlutverkum innan liðsins.