Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ætlum að vera með í keppninni um alla titlana
Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 15:19

Ætlum að vera með í keppninni um alla titlana

Körfuknattleikslið Grindavíkur er nýkomið heim úr æfingaferð í Belgíu þar sem liðið var við stífar æfingar og lék tvo æfingaleiki. Sigur hafðist í báðum leikjum og sagðist Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga hafa verið ánægður með báða leikina ytra.

 

,,Við lékum tvo leiki og annar þeirra var gegn liði í 2. deild sem heitir Falco Gent. Þar höfðum við sigur með 2 stigum og vorum nokkuð kátir með þann leik,” sagði Friðrik en gulir líta sérlega vel út fyrir komandi átök í Iceland Express deildinni þessa leiktíðina.

 

Grindavík hafði nýverið sigur í Reykjanesmótinu en þeir voru eina liðið sem telfdi fram öllum sínum erlendu leikmönnum í mótinu enda voru þeir að undirbúa sig fyrir ferðina til Belgíu. Fyrir þessa leiktíð héldu Grindvíkingar sama mannskap frá því í fyrra og bættu við sig þeim Igor Beljanski og Hirti Harðarsyni.

 

,,Reykjanesmótið gaf kannski ekki raunhæfa mynd af stöðu mála en það var gott að fá allan mannskapinn svona snemma inn. Það eru enn mörg lið sem eru óskrifað blað og þá nefni ég t.d. Keflavík og Njarðvík en deildin í vetur verður skipuð mörgum sterkum liðum og þá verða KR-ingar einnig mjög sterkir. Við nutum góðs af því að fá mannskapinn snemma inn til okkar og lítum kannski óþarflega vel út svona í byrjun. Við erum engu að síður með betra lið en í fyrra og ætlum okkur að gera betur í ár. Það er hinsvegar fráleitt að við séum með yfirburðalið en stefnan er að vera með í keppninni um alla titlana,” sagði Friðrik.

 

Grindvíkingar duttu út í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar eftir tap í oddaleik gegn Njarðvík. Nú hafa gulir aðeins bætt við sig og koma því tvíelfdir til leiks og ekki ætti að koma á óvart ef þeim yrði spáð ofarlega í tölfuna.

 

VF-Mynd/ [email protected] Friðrik Ragnarsson segist vera með betra lið í ár heldur en í fyrra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024