„Ætlum að sýna hvað í okkur býr“
Björk Gunnarsdóttir leikur með Njarðvík í Domino’s-deildinni í körfuknattleik en tímabilið hjá Njarðvíkingum hefur farið brösuglega af stað. Liðinu hefur enn ekki tekist að sigra leik í deildinni. Björk er hins vegar bjartsýn fyrir framhaldinu og hefur fulla trú á því að liðið taki sig taki. „Við erum ákveðnar að sýna hvað í okkur býr og að við eigum heima í þessari deild.“
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Veturinn leggst bara ágætlega í mig. Við höfum farið heldur brösuglega af stað en það er stígandi í liðinu og ég hef fulla trú á okkur.“
Hvernig hafa æfingarnar verið hjá ykkur?
„Góðar, sérstaklega núna í landsleikjapásunni. Við tókum vel á því og erum ákveðnar í því að sýna hvað í okkur býr og að við eigum heima í þessari deild.“
Hvað leggið þið upp með í vetur og hver eru markmiðin þín?
„Við tökum einn leik í einu og markmiðið er að halda okkur uppi í deildinni þar sem við eigum heima. Sýna fólki hvað í okkur býr.“
Er breiddin mikil í liðinu?
„Breiddin er góð í liðinu, við getum spilað öllum leikmönnum. Það eru alltaf allar tilbúnar að koma inn á af bekknum með baráttu. Ég held meira að segja að liðið okkar sé með flestu stigin af bekknum í deildinni.“
Hver er skemmtilegasti/erfiðasti andstæðingurinn?
„Ég á ekki beint einhvern skemmtilegasta/erfiðasta andstæðing en mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að keppa á móti Keflavík, nágrannaslagur er alltaf skemmtilegur. Svo er skemmtilegast að spila þegar liðið mætir með rétt hugarfar í leiki og er tilbúið að gefa sig alla fram, þá verða leikirnir sjálfkrafa skemmtilegir.“
Skiptir stuðningurinn máli?
„Já, klárlega. Mér finnst stuðningurinn skipta afskaplega miklu máli. Hann gefur manni svona auka „boost“ þegar maður er að spila.“
Áttu einhverja skemmtilega sögu af liðinu?
„Þegar við kepptum bikarleik á móti Stjörnunni var svo mikil spenna í gangi og leikurinn rafmagnaður að rafmagnið á öllum Suðurnesjum sló út og það var rafmagnslaust í um tvo tíma. Það sló út bara rétt eftir að við komum inn í klefa eftir leikinn. Við erum heppnar að það gerðist ekki tíu mínútum fyrr þegar leikurinn var ennþá í gangi.“